Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:58:40 (6315)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta eru mjög athyglisverðar umræður sem hér eiga sér stað en vegna ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur vil ég biðja hv. þm. um að rugla ekki saman löggjafarvaldinu annars vegar og hins vegar dómsvaldinu vegna þess að löggjafinn setur einungis rammann hvort sem það er refsilágmark eða refsihámark. Hins vegar er það að sjálfsögðu dómstóla að ákveða refsinguna.
    Ég vil þó taka fram að þetta var rætt sérstaklega í nefndinni, t.d. varðandi nauðgunarákvæði í frumvarpinu. Þar stóð til að kljúfa upp ákvæðið og taka út úr 1. mgr., eins og frumvarpið var upprunalega, svokallað refsilágmark varðandi nauðganir. Þetta þótti nefndinni hættuleg leið því hún taldi hættu á því að það þá yrði tekið vægar á þessum afbrotum og þess vegna taldi nefndin rétt að setja aftur refsilágmark inn í þetta ákvæði í frumvarpinu. Það má auðvitað segja sem svo að sú breyting eða tillaga til breytingar feli í sér viss tilmæli til dómstóla um að taka nú ákveðið á þessum brotum. Menn hafa einmitt gagnrýnt það nokkuð að svo hafi ekki verið gert og þá ekki síst fyrir brot gagnvart börnum og unglingum.

    Ég ítreka að það var rætt lengi um það í allshn. hvaða orð ætti að nota í þessu frv. Það komu fram ýmsar tillögur t.d. hvort það mætti nota orðin karl og kona eða karl eða kona í staðinn fyrir orðið manneskja. En meiri hluti nefndarmanna gat ekki fallist á þá tillögu. Þeir voru sammála um að þarna ætti að nota orðið maður. Að sjálfsögðu eiga allir stjórnmálaflokkar fulltrúa í þessari nefnd. Það kemur því kannski svolítið á óvart að þessi umræða skuli koma úr fleiri áttum en frá fulltrúum Kvennalistans á Alþingi.