Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1991

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 16:11:44 (6321)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég styð þá breytingu sem hv. utanrmn. hefur lagt fram. Það er aðeins spurning um orðalag og ef þetta orðalag er betur fallið til þess að vinna að framkvæmd þessara ályktana þá er að sjálfsögðu mjög eðlilegt að því sé breytt.
    Mig langar aðeins að nefna fyrsta lið í ályktunum Vestnorræna þingmannaráðsins, þ.e. ályktun um að landsstjórn Færeyja, Grænlands og ríkisstjórn Íslands stuðli að því að reglum um Þróunarsjóð Vestur-Norðurlanda verði breytt í því skyni að veita áhættulán til atvinnustarfsemi í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi.
    Ég vil að það komi fram hér að það var rætt á fundi nefndarinnar fyrir ári síðan að mjög nauðsynlegt væri að breyta reglum þessa sjóðs. Það kom fram í ársskýrslu hans sem nýlega var lögð fram á aðalfundi sjóðsins þar sem reikningar voru lagðir fram, að þessi sjóður stendur mjög vel, hann skilar miklum hagnaði og hefur fyllilega svigrúm til þess að standa undir einhverjum áhættulánum en stofnskrá sjóðsins bannar að hann geti tekið þátt í áhættulánum. Þess vegna vonast ég til þess að þegar búið er að samþykkja, sem ég vænti að verði gert, þessar tillögur frá Vestnorræna þingmannaráðinu muni ríkisstjórnin í framhaldi af því beita sér fyrir því að þessar reglur verði endurskoðaðar en það þarf að sjálfsögðu að gerast í öllum þeim löndum sem hafa með þennan sjóð að gera. Það er ekki bara á Íslandi. Trúlega tekur það einhvern tíma. En ég tel að miðað við stöðu sjóðsins sé mjög nauðsynlegt að nýta frekar það fjármagn sem þar er til ráðstöfunar svo það komi atvinnustarfsemi í þessum löndum að meira gagni.