Viðlagatrygging Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 16:22:00 (6324)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Fyrr í umræðum um þetta mál beindi hv. 9. þm. Reykv. nokkrum spurningum til heilbrrh. varðandi þetta mál. Hann spurði um fjárhagslegar eða reikningslegar forsendur frv. Ég vil fyrst segja að frv., sem heilbr.- og trmrh. flutti í þinginu, er byggt á drögum sem nefnd samdi að frumkvæði stjórnar Viðlagatryggingar. Í þeirri nefnd voru Arnljótur Björnsson prófessor, Bjarni Þórðarson tryggingastærðfræðingur og Freyr Jóhannesson tæknifræðingur.
    Um hinn fjárhagslega grundvöll málsins get ég kannski ekki sagt svo ýkja margt en þó það að eigið fé Viðlagatryggingar var um 3 milljarðar kr. í árslok 1990 eða 0,19% af þeim vátryggingarfjárhæðum sem unnt var að gefa upplýsingar um en heildaráhætta Viðlagatryggingar vegna eins vátryggingaratburðar, eins og það er orðað, nam þá 4,7 milljörðum kr. Eigið fé stofnunarinnar var því um 64% þess sem einn atburður gæti kostað.
    Í frv. er lagt til að heildaráhættan hækki í áföngum. Miðað við tölur 1990 mundi eigið fé stofnunarinnar einungis vera um 19% af heildaráhættu vegna eins atburðar þegar sú áhættuhækkun er komin á. Það þykir einsýnt að lækkun iðgjalda komi ekki til á næstunni en um síðustu áramót var eigið fé Viðlagatryggingar um 3,7 milljarðar kr.
    Hv. þm. Svavar Gestsson spurði um ábendingar Tryggingaeftirlitsins og ábendingar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég fæ ekki betur séð en að við umfjöllun málsins í nefnd hafi verið tekið tillit til, að mér sýnist, nær allra þeirra ábendinga sem komu frá Tryggingaeftirlitinu og að frv. hafi verið breytt til samræmis við þær ábendingar sem þar komu fram og að í stórum dráttum gildi einnig hið sama um þær athugasemdir sem komu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.
    Vera má að það megi til sanns vegar færa og rökum styðja að hér sé ekki um heildarendurskoðun frv. að ræða heldur lagfæringar út frá reynslu og rekstrarforsendum. Þeir sem gerst þekkja telja að þær breytingar sem hér hafa verið gerðar séu tvímælalaust og mjög ótvírætt til bóta.
    Ég vona að ég hafi a.m.k. að nokkru leyti svarað þeim spurningum sem hv. þm. bar fram.