Viðlagatrygging Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 16:56:32 (6329)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar ég gegndi embætti fjmrh. á síðasta kjörtímabili var það nánast stefnuafstaða Sjálfstfl. að í löggjöf yrði að taka tillit til afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga. Hv. núv. þm. Sturla Böðvarsson sat þá, ef ég man rétt, í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og var framarlega í flokki þeirra sem hneyksluðust mjög á því að ekki var tekið tillit til afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Það vill einnig svo til að lögboðið er að hafa skuli samráð við Samband ísl. sveitarfélaga. Í því skyni fara fram sérstakir samráðsfundir sem félmrh. stýrir og fjmrh. sækir og aðrir ráðherrar eftir efnum og ástæðum, m.a. heilbrrh. Á síðasta kjörtímabili sátu ég og þáv. heilbrrh. ærið marga slíka formlega samráðsfundi.
    Nú heyrist mér það vera að gerast hér að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ætlar að hafa að engu tilmæli og ábendingar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og leggur meira að segja í að halda fram þeirri blekkingu sem hv. þm. Sturla Böðvarsson gerði áðan að Samband ísl. sveitarfélaga hefði bara ekkert við málið að athuga.
    Það virðist vera orðin lenska upp á síðkastið í nefndum þingsins hjá stjórnarmeirihlutanum að forðast alla faglega og efnislega umræðu, heldur er málum bara rutt út. Og það verður að hafa það þó að einhverjir úti í þjóðfélaginu séu að gera við þetta skynsamlegar og efnislegar athugasemdir, á það er ekki hlustað. Lagasetningin er bara orðin færibandavinna. Hv. þm. Sturla Böðvarsson er orðinn sendisveinn fyrir framkvæmdarvaldið hér í þingsölum. Hann tekur það að sér að koma í gegn frumvörpum sem einhverjir ,,teknókratar`` úti í bæ semja og virðist vera í fararbroddi þeirra sem ætla að leggja niður þau vinnubrögð sem tíðkast hafa um margra áratuga skeið, að í þinginu séu vegin og metin erindi sem aðilar utan þings skila til nefndanna og tekin afstaða til þess hvort eðlilegt sé að taka tillit til þeirra.
    Í athugasemdum Sambands ísl. sveitarfélaga kemur m.a. fram um 4. gr. frv., að þegar um tjón er

vegna náttúruhamfara mæli margt með því að slíkt verði tryggt með sama hætti og verið hefur t.d. ef ár og lækir flæða yfir bakka og valda skemmdum á tryggðum eignum. Samband ísl. sveitarfélaga varar við því að vísa slíkum tryggingum yfir á hinn frjálsa markað.
    Hver er formaður Sambands ísl. sveitarfélaga? Er það ekki borgarfulltrúi Sjálfstfl. í Reykjavík? Ja, bragð er að þá barnið finnur. Þegar samtök sveitarfélaganna á landinu, sem Sjálfstfl. stjórnar, varar við því sérstaklega að vísa slíkum tryggingum yfir á hinn frjálsa markað er þá ekki ástæða til þess að hið hugsunarlausa frjálshyggjulið í þingsölum nemi aðeins staðar? Eða er þetta þannig að allir eru marklausir? Morgunblaðið er marklaust varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna og Samband ísl. sveitarfélaga er marklaust hvað snertir varnaðarorð vegna tjóna af náttúruhamförum. Við vitum að í þessu landi eru það einmitt slík tjón sem verða oft á tíðum erfiðust og dýrust fyrir fólkið í hinum ýmsu sveitarfélögum landsins. Þess vegna er það sem Samband ísl. sveitarfélaga varar við slíkum hætti. Það væri fróðlegt að vita hvað hv. þm. Halldór Blöndal, núv. samgrh., segði um það ef tjónin sem urðu á Ólafsfirði fyrir u.þ.b. tveimur árum og tryggingarnar á þeim hefðu bara átt að byggja á því að menn hefðu farið út á hinn frjálsa markað.
    Um 5. og 6. gr. frv. segir Samband ísl. sveitarfélaga:
    ,,Þannig verða tæplega séð rök fyrir því að hitaveitur, skolpveitur, vatnsveitur og hafnarmannvirki séu skyldutryggð ef sveitarfélag er eigandi þeirra, en ekki ef þessi mannvirki eru í einkaeign. Hins vegar er t.d. ekki gert ráð fyrir skyldutryggingu raforkumannvirkja, hvort heldur þær eru í opinberri eigu eða einkaeign.``
    Fróðlegt væri að vita hvað hv. þm. Sturla Böðvarsson segði um þetta atriði. Er þetta þannig að það sé bara verið að skyldutryggja mannvirki af þessu tagi til þess að hafa fé af sveitarfélögunum, en það þurfi ekki að gera það ef þau eru í einkaeign?
    Hver er hugsunin að baki því hjá meiri hlutanum á Alþingi að neita að skoða þessa ábendingu Sambands ísl. sveitarfélaga? Eða er það þannig að þeir gæðastimpluðu sjálfstæðismenn sem sitja í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga séu allt í einu orðnir marklausir? Það séu bara menn sem vita ekkert hvað þeir eru að tala um og það eigi alls ekkert að hlusta á þá hér í þingsölum af því að einhverjir bírókratar sem sömdu frv. séu búnir að öðlast alla visku í málinu? Mér finnst nú satt að segja ekki stórmannlegt hjá sveitarstjórnarmönnum sem sitja á Alþingi, eins og hv. þm. Sturlu Böðvarssyni og hv. þm. Agli Jónssyni, að vera komnir í þá stöðu að þeir eru bara orðnir viljalaus verkfæri í höndum einhverra bírókrata. ( EgJ: Það er langt síðan ég lenti í sveitarstjórn.) Það er langt síðan, það er alveg rétt, en þingmaðurinn átti glæsilegan feril í sveitarstjórn meðan hann sat þar og engin ástæða til þess að gleyma því hér. Og sýndi af sér mikið sjálfstæði og hefur verið ágætis baráttumaður fyrir hagsmuni síns sveitarfélags. Það hefur verið þannig í landbúnaðarmálum að hv. þm. Egill Jónsson hefur nú ekki verið tilbúinn til þess að taka því sem að honum er rétt af einhverjum bírókrötum úti í bæ.
    Er það þannig í sveitarstjórnarmálum að menn séu bara allt í einu tilbúnir að taka við því sem einhverjir teknókratar í tryggingamálum semja, burt séð frá öllum hagsmunum og eðlilegum samskiptum ríkis og sveitarélaga?
    Samband ísl. sveitarfélaga segir í ábendingu sinni: ,,Réttara væri að öll ofangreind mannvirki í eigu sveitarfélaga féllu undir heimildatryggingu, a.m.k. að þau væru undanþegin skyldutryggingu ef sveitarfélag kýs að kaupa sér tryggingu frá öðrum aðila.``
    Það er athyglisvert. Í þessu atriði er stjórnarmeirihlutinn allt í einu orðinn þannig að frjálsi markaðurinn má ekki ráða. Nei takk, þá skal skyldutryggingin ráða ríkjum. Það er sem sagt ekkert system í þeirri afstöðu sem ræður, þannig að þó eitt reki sig á annars horn hjá teknókrötunum sem sömdu frv. skal það yfir stjórnarmeirihlutann á Alþingi ganga.
    Og ég spyr: Hvaða rök eru fyrir því að hafna frelsi til að velja sér tryggingar hjá þeim sem menn vilja á þeim sviðum sem sveitarfélögin vilja hafa það frelsi, en þvinga síðan inn á sveitarfélögin frjálsa afstöðu, eins og í 4. gr. frv. til þess að lúta hinum frjálsa markaði þar sem þeir vilja það ekki?
    Eins og hv. þm. Svavar Gestsson benti á segir í athugasemdum Sambands ísl. sveitarfélaga til viðbótar því sem ég hef rakið varðandi 10., 11. og 18. gr. að engar upplýsingar fylgi frv. um iðgjaldafjárhæðir, engar um tryggingarfjárhæðir, engar um endurtryggingar. Engar upplýsingar eru heldur um eiginfjárstöðu stofnunarinnar, þó það hafi nú loksins verið upplýst hér í dag að það vantar allar upplýsingar enn um iðgjaldafjárhæðir, tryggingarfjárhæðir og endurtryggingar. Mér er sem ég sæi Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili láta bjóða sér svona vinnubrögð.
    Er það þannig að þegar flokkar taka að sér að stjórna ríkisvaldinu verði þeir bara sendisveinar fyrir teknókratana? Þannig að öll lýðræðisleg umræða milli þeirra sem eru kosnir af fólkinu í sveitarfélögunum og okkar sem erum kosnir af fólkinu á Alþingi, skal bara ýtt til hliðar, af því að færibandareglan skal gilda? Lýðræðislegri umræðu, rökum og skynsamlegum skoðanaskiptum skal ýtt út af borðinu?
    Svo segir hér: ,,Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga leggur til að tillit verði tekið til ofangreindra sjónarmiða við endurskoðun laganna.``
    Það er sem sagt alveg greinilegt að í flestum veigamestu greinum frv. leggur stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga til að því verði breytt. Hver eru rökin fyrir því að taka ekki tillit til þessara óska? Ég vil spyrja þá þingmenn Sjálfstfl. sem hér eru í salnum. Þeir hafa staðið að því að setja lög um reglubundið og fastbundið samráð ríkis og sveitarfélaga. Þeir hafa staðið að því á Alþingi að leggja áherslu á það hvað

eftir annað að þessi tvö stjórnstig í landinu skuli kappkosta að taka tillit hvort til annars og hafa samráð sín á milli. Auðvitað er það rétt að það geta komið tilvik þar sem fulltrúar ríkisvaldsins ákveða að þeir kjósi frekar að fara sínar leiðir en að láta í einu og öllu að vilja sveitarfélaganna. Það getur verið eðlilegt og fyrir því geta verið efnisleg rök. En þá gerist það að undangenginni samræðu og rökræðu og upplýsingum þar sem þessir aðilar vega og meta hvað sé skynsamlegt og hvað sé óskynsamlegt. Þannig hefur þetta verið.
    Nú sýnist mér aftur á móti að það sé í uppsiglingu fordæmi sem er byggt á því að þótt Samband ísl. sveitarfélaga hafi lagt ítarlega vinnu í það að meta frv., rætt það á sínum vettvangi, óskað eftir skynsamlegum breytingum þá er bara sagt: Nei. Sjálfvirkt nei. Og ég spyr: Er það hin nýja regla sem á að setja í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sjálfvirkt nei?
    Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt áður en þessari umræðu lýkur að hæstv. félmrh. komi til umræðunnar. Þegar ég sat með hæstv. félmrh. í ríkisstjórn þá kappkostaði hún, bæði á vettvangi ríkisstjórnar og á vettvangi Alþingis, að standa vörð um það að ítarlega væri tekið tillit til þeirra tillagna sem Samband ísl. sveitarfélaga setti fram og ef þeim væri hafnað væri það ekki gert fyrr en búið væri að ræða við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um þá höfnun. Ég vil spyrja fulltrúa í nefndinni og stjórnarliðinu: Hefur það verið rætt við hæstv. félmrh. um að hafna þessum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga? Ef búið er að ræða það við ráðherrann þá skal ég ekki halda til streitu þeirri ósk minni að hún sé kölluð til umræðunnar. Ég vil því fá svar við því áður en þessari umræðu lýkur: Hefur það verið rætt við hæstv. félmrh. að hafna þessum ábendingum Sambands ísl. sveitarfélaga? Ef það hefur ekki verið gert óska ég eftir því, virðulegi forseti, að þessari umræðu verði ekki lokið fyrr en hæstv. félmrh. hefur haft tækifæri til þess að kynna sér, annaðhvort utan umræðunnar eða þá í umræðunni síðar meir hvað hér er að gerast. Ég vek athygli á því og legg áherslu á það að samkvæmt lögum er hæstv. félmrh. í forsæti þess lögbundna samráðs sem ríkir milli ríkis og sveitarfélaga.
    Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að þeir fulltrúar stjórnarflokkanna sem hafa stýrt málinu í nefnd í þinginu svari þessum spurningum sem ég hef hér lagt fram og við getum síðan metið framhald umræðunnar í ljósi þess.