Náttúrufræðistofnun Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 17:27:22 (6332)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þingstörf gerast æ skrýtnari á hinu háa Alþingi. Við 2. umr. frv. var hv. flm. þessarar brtt. heldur ekki viðstaddur og fyrir því voru ástæður því að hann var við skyldustörf erlendis. Ég tók til máls þegar í upphafi, þegar mælt var fyrir frv., og gerði þá athugasemd að ég hefði ekki mikla trú á að æskilegt væri að skipta Náttúrustofnun Íslands í mörg setur, sem mun vera nýyrði í þessu samhengi. Nógu erfiðlega hefur gengið að fjármagna þann vísi að Náttúrugripasafni sem við eigum í Reykjavík þó að ekki sé farið að dreyma dagdrauma um að hafa náttúrustofur í hverju kjördæmi. Auðvitað væri það æskilegt ef peningar væru til og fjármunir fengjust á fjárlögum. En allt getur það verið framtíðarsýn sem vel á rétt á sér í lögum ef úr rætist um efnahag þjóðarinnar.
    Svo vildi til að mér líkaði ekki illa brtt. hv. 3. þm. Reykn., og ég hefði viljað heyra hann mæla fyrir þessari tillögu sinni og sýna fram á þau rök sem fyrir henni eru. Ég hefði jafnvel verið tilbúin til að styðja hana ef í það hefði farið. En hann var ekki viðstaddur og ekki hægt að tala við hann í það skiptið enda tillagan dregin til baka til 3. umr. Ég taldi víst að það væri hægt að eiga orðastað við hv. þm. við 3. umr.
    Nú gerast þau undur og stórmerki að hæstv. fjmrh. kemur hér við 3. umr. og talar á mjög sérkennilegan hátt fyrir þessari tillögu, lýsir því yfir að þingmaðurinn sé upptekinn annars staðar, vel kunni að vera að hann verði hér við atkvæðagreiðslu. Og ég spyr: Er það nýr háttur hér á hinu háa Alþingi að menn geti hafið málefnalegu umræðu undir liðnum um atkvæðagreiðslu? Hann er með slíkum ólíkindum þessi leikaraskapur. ( Forseti: Forseti vill upplýsa hv. þm. um að hv. 3. þm. Reykv., Árni Mathiesen, er veikur í dag.)
    Hæstv. forseti. Ég skal auðvitað virða þau forföll. En ég undrast þá þeim mun meira, frú forseti, að málið skyldi tekið á dagskrá nú því það var öllum ljóst að ég óskaði eftir að eiga orðastað við umræddan þingmann um þetta mál. Það var ekki nokkur ástæða til að taka málið á dagskrá í dag ef hæstv. forseti vissi að þingmaðurinn var veikur.
    Síðan lýsir hæstv. ráðherra því yfir að þingmaðurinn sé svo sem alveg tilbúinn til að draga málið til baka. Hvað á þetta eiginlega að þýða? Ég hef aldrei kynnst slíkum vinnubrögðum hér á hinu háa Alþingi. Ef einhverjum hv. þm. er í mun að fá fram breytingu á frv. þá ver hann auðvitað sitt mál og skýrir af hverju hann vill breytingu. Annaðhvort eru þingmenn sammála honum eða ósammála og síðan eiga menn orðastað um það. En að hv. þm., sem er að bera fram umtalsverða breytingu á frv., geti hvorki verið við 2. né 3. umr., í hæsta lagi að hann geti verið við atkvæðagreiðslu --- mér skilst að það sé óvíst --- og biður hæstv. fjmrh. að lýsa því yfir að það skipti svo sem engu máli þó að tillagan verði dregin til baka, slíkt er fáheyrt. Ég vil bara vekja athygli á þessum mjög svo nýstárlegu vinnubrögðum og harma að hafa ekki mátt styðja þessa brtt. sem mér leist ekki afleitlega á. Ég hafði sömu efasemdir og hv. þm. þótt hann sé ekki í mínum flokki. Ég hef hingað til ekki sætt mig við að þingmenn mætu mál eftir því hver flytti þau, ég hef alla vega ekki gert það.
    Nú er svo komið, hæstv. forseti, að hér áðan lentum við í vandræðum með frv. til almennra hegningarlaga sem mestan part fólst í vandræðalegu orðalagi. Það var ljóst að þingmenn gátu ekki sætt sig við frv. eins og það var svo ég hripaði niður brtt. sem ég taldi leysa þann vandræðagang. Í mestu vinsemd fékk ég formanni hv. allshn. tillöguna. Hún kallaði síðan saman fund í nefndinni og ég taldi víst að hún hefði sýnt nefndinni þessa útgáfu. Það hafði hún ekki gert. Hún upplýsti að hún hefði skilið hana eftir á borðinu. Þetta þvingar mig auðvitað í því máli að bera fram brtt. sjálf sem ég ætlaði aldeilis ekki að gera. Ég

ætlaði ósköp einfaldlega að lána hv. formanni allshn. hugmyndina að betri texta sem ég tel að hann sé.
    Þetta er alveg nýtt, hæstv. forseti, fyrir okkur sem höfum setið hér um nokkurt árabil að þingmenn standi ekki saman um að reyna að skila sómasamlegum lagafrv. frá sér. Ég minnist fyrri tíma þegar ekki var eins öflugur starfskraftur í nefndadeild enda var engin nefndadeild til þá. Við stjórnarandstöðuþingmenn sátum og skrifuðum fyrir ráðherra, sem við vorum í andstöðu við, nefndarálit til að greiða fyrir þingmálum vegna þess að við vissum að okkur var nauðugur einn kostur að virða rétt ríkisstjórnar til að koma sínum málum fram ef hún hafði til þess meiri hluta. Við töldum ekki eftir okkur að hjálpa til við að sá lagatexti væri þinginu sæmandi.
    Nú eru hér upp risnir einhverjir fjandsamlegir andstæðingar þar sem enginn getur hlýtt á annan nema hann sé í sama flokki. Er þetta Alþingi framtíðarinnar, hæstv. forseti? Ég fordæmi þetta. Ég leyfi mér að fara fram á rétt minn sem þingmaður til að koma með tillögur um betri lagatexta, ef menn geta á það fallist, og fá að vinna með, hvort sem er stjórn eða stjórnarandstöðu, að því að ganga þannig frá málum og þau séu Alþingi sæmandi. Ég er ekki í persónulegu stríði hér við neinn. Ég er tilbúin til að aðstoða stjórnarliðið við allt það sem ég get varið fyrir sjálfri mér. En það er með ólíkindum hvernig vinnubrögð eru að verða hér. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að úr þessu verði bætt, að menn komi ekki hér og geri lítið úr þingmönnum með því að senda hæstv. fjmrh. til að segja að tillagan, sem hv. þm. var að lýsa stuðningi við, sé raunar einskis virði og þingmaðurinn sem flutti hana sé alveg tilbúinn til að draga hana til baka. Hvað er hér að gerast? Ég vil fara fram á það að Alþingi Íslendinga taki upp þau vinnubrögð sem hér hafa tíðkast að ég held frá því að Alþingi kom saman árið 1845, að þingið í heild líti á sig sem löggjafarsamkomu en ekki einhverjar óvinveittar hersveitir.