Lífeyrissjóður sjómanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 18:06:00 (6335)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég mun vera búin að tala tvisvar í þessu máli og hef þess vegna ekki leyfi til að gera annað en að veita andsvar.
    Það er afar erfitt vegna þess að augljóst er að hv. 16. þm. Reykv. skilur ekki um hvað ég er að tala. Fjarvera hans á hinu háa Alþingi skiptir mig engu máli. Það sem skiptir máli er að það er verið að skerða kjör félaga í Lífeyrissjóði sjómanna. En það atriði kom hv. þm. hreint aldeilis ekki inn á. Endurmatið byggðist nefnilega á mati á því hvort sjómaðurinn gæti verið sjómaður eftir það slys sem hann varð fyrir. Endurmatinu er breytt. Nú á örorkan að metast eftir því hvort hann yfirleitt getur unnið nokkurn skapaðan hlut. Þessu er ég að mótmæla en ég held að hv. þm. skilji ekki alveg hvað það þýðir. Það er ósatt sem hann segir að menn verði ekki lækkaðir enda er það tekið fram um 10. gr. að auðvitað lækka bætur manna við þetta nýja mat. Þau rök að ég sé örugg í góðum lífeyrissjóði og ætti bara að þegja um lífeyrissjóð annarra manna eru einskis virði. Kannski rennur mér blóðið til skyldunnar þess vegna, já ég vildi gjarnan að sjómenn byggju við jafngóðan lífeyrissjóð og ég sjálf. Ég er nefnilega ekki að biðja um að Lífeyrissjóður sjómanna sé skertur heldur að réttur sjómanna sé bættur. Ég hefði kosið að hafa lengri tíma til að hrekja hvert einasta orð sem hv. 16. þm. sagði. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hann að lokum: Hafa sjómannasamtökin í heild verið spurð um álit á frv.?