Lífeyrissjóður sjómanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 18:23:00 (6340)


     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Mér finnst sjálfsagt að taka til greina beiðnir stjórnar lífeyrissjóða í landinu um breytingar á lögum til að aðlaga bótarétt að tekjum. Ég hef enga sérstaka skoðun á því hvernig það er gert í þessu tilviki en það er eðlilegt að það sé tekið fyrir í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar og farið yfir það þar. Ég þykist vita að þegar verið er að draga úr bótum til samræmis við tekjur þá verði ekki gert svo öllum líki hvort sem það er þessi sjóður eða aðrir. Mér kom því nokkuð á óvart þegar hv. 16. þm. Reykv. talaði með nokkurri óvirðingu um annan sjóð sem hefði þurft að taka á slíkum málum. Það var ekki verið að nefna hann í umræðunni eins og einhverjum ákveðnum þingmönnum sem bæri sértök skylda til að tala um þann sjóð. Þannig er það nú ekki, hv. 16. þm. Reykv. Ég skal ekki dæma um það hvernig hlutirnir hafa verið aðlagaðir í þeim sjóði frekar en þessum. En það er eðlilegt að það sé rætt og menn taki á vandanum.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um lífeyrissjóðsmál sjómanna almennt sem er eðlilegt við þessar aðstæður. Það var m.a. vitnað til þess að því hefði verið lofað í kjarasamningum 1981 að hækka þessar bætur, sem er rétt, að beiðni sjómanna, að kröfu þeirra. Það lá hins vegar aldrei fyrir hver ætti að borga og hvernig ætti að standa að greiðslu þeirra mála. Forustumönnum sjómannasamtakanna var það fullkomlega ljóst. Það hefur nú oft og tíðum verið þannig þegar verið er að krefja um ýmislegt í okkar samfélagi að menn hafa minni áhyggjur af því hvernig á að standa við að borga hlutina. Ætli það sé ekki einmitt þess vegna sem í þessu tilviki þarf að breyta réttindunum að það hefur ekki verið haft í heiðri. Hitt er svo annað mál að það hafa stundum gengið greiðslur til lífeyrissjóða sjómanna í tengslum við gengisbreytingar fyrr á árum til að styrkja stöðu þeirra. Þar með var í litlu reynt að bæta úr í sambandi við erfiða stöðu sjóðanna. Aðalmálið er hins vegar að það er alveg nýlega sem farið er að greiða af fullum tekjum sjómann í lífeyrissjóð. Það gerðist aðeins fyrir nokkrum árum. Það er aðalástæðan fyrir því hversu illa er komið fyrir lífeyrisréttindum sjómanna í landinu. Það er að sjálfsögðu vegna þess að útvegsmenn neituðu því ávallt í kjarasamningum að teknar væru upp sambærilegar lífeyrisgreiðslur til handa sjómönnum eins og öðrum stéttum. Þetta hafðist þó loks í gegn fyrir nokkrum árum, m.a. fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins og viðræðum sem áttu sér stað og það var mikið framfaraspor.
    Hins vegar er eitt alvarlegt í sambandi við þetta mál að fyrir alllöngu síðan var ákveðið að sjómenn skyldu njóta ellilífeyris frá og með 60 ára aldri. Það var ákveðið með lögum í vetur að þessi lífeyrir skyldi sérstaklega skertur. Það kemur þannig út að þegar um er að ræða sjómann sem hefur litlar bætur úr lífeyrissjóði en reynir að afla sér einhverra annarra tekna vegna hinna litlu bóta að hann fær verulega skerðingu á ellilaunum. Það var eitt af því sem gert var til að reyna að koma til móts við alla þessa raunasögu, að samþykkja lög þar sem sjómenn fengu annan ellilífeyrisrétt en aðrir í landinu. Það var samþykkt samhljóða á Alþingi og fulltrúar allra flokka fögnuðu því sérstaklega. Það var hins vegar ákveðið í vetur að taka þetta af með þeim hætti sem allir muna eftir. Það væri fróðlegt að vita hvort rætt hefur verið um í sambandi við þetta mál að leiðrétta það sem gerðist í vetur, m.a. til að hægt sé að standa við margt af því sem úrskeiðis hefur farið í gegnum tíðina. Ég varð ekki var við að hæstv. fjmrh. minntist neitt á það og vildi ég gjarnan spyrja hvort það gæti náðst samstaða að breyta þessu máli í hið fyrra horf eins og samþykkt var á Alþingi samhljóða á sínum tíma. Réttur þessara manna, sem flestir hverjir búa við afar lítinn lífeyri, yrði þannig bættur í nokkru aftur.
    Ég get vel hugsað mér að afgreiða þetta mál sem fyrst og vil ekki standa að því að það tefjist á einn eða annan hátt í þinginu. Mér er ekki alveg ljóst hversu mikið liggur á því. Hins vegar bendir margt til þess, miðað við hvað það er seint fram komið, að það gæti þess vegna beðið haustsins. Ef hægt væri að ná um það samstöðu að samhliða þessari breytingu færi fram leiðrétting til hins fyrra horfs, sem ég gat áður um, þá væri það vel. Ég hygg að sú breyting hafi ekki eingöngu verið ásetningur sem varð í vetur heldur e.t.v. ákveðið athugunarleysi sem var eðlilegt að yrði leiðrétt í meðförum þingsins. Því var neitað.

En það er alltaf tími til að lagfæra. Það væri gott ef þessi vondu mistök yrðu lagfærð í sambandi við afgreiðslu þess máls sem við höfum hér fyrir framan okkur.