Lífeyrissjóður sjómanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 18:31:00 (6341)


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Mér sýnist að í frv. felist ýmis skynsamleg ákvæði. Ég tel eðlilegt að athuga það í nefnd og greiða fyrir framgangi þess. Mér er tjáð að hv. 16. þm. Reykv., Guðmundur Hallvarðsson, Íslands Hrafnistumaður nútímans, ( Gripið fram í: Með meiru.) hafi kvartað yfir því að ég skyldi víkja úr þingsalnum eða þinghúsinu í hálftíma eða svo. Ég tel mér það til tekna ef hv. þm. saknar mín. Ég get ekki sagt að ég sakni hv. 16. þm. Reykv., Guðmundar Hallvarðssonar, þegar hann er fjarverandi. En ég tek hins vegar eftir því þegar hann mætir á þingfundi því þá fer sannarlega hressandi gustur um þingsali.
    Hinir gömlu Hrafnistumenn höfðu þann vilja og það vit að þeir komust upp á lag með það fyrstir manna í veröldinni, ef ég veit rétt, að sigla á móti vindinum. Mér þykir hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, eftir þeim litlu en ágætu kynnum sem ég hef haft af honum í vetur, líklegri til að sigla undan vindi. Mér finnst hann eiginlega hafa flatrekið hér hvað eftir annað í vetur.