Lífeyrissjóður sjómanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 18:53:36 (6348)


     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Forseti. Vegna orða síðasta ræðumanns vil ég segja að eins og margoft hefur komið fram er þessi skerðing, ef svo mætti kalla, með þeim hætti að þeir sem verða endurmetnir og hafa náð starfsorku til að gegna jafnvel fullu starfi í landi fá skertar greiðslur. Það hlýtur hver maður að spyrja sjálfan sig: Er það eðlilegt og er það tilgangur lífeyrissjóðanna að greiða manni sem getur unnið fullt starf fullar örorkubætur? Þið þekkið hvernig framreikniregla lífeyrissjóðanna er. Fimm síðustu ár eru lögð til grundvallar þegar maður verður öryrki og með þær tekjur, meðaltekjur, er maðurinn framreiknaður til 65 ára aldurs. Út frá því er honum greiddur mánaðarlegur örorkulífeyrir.
    Ég þykist vita að þeir sem eru úti á sjó og eru að afla tekna til þess að undirbúa hæfilegt og rólegt ævikvöld með iðgjaldagreiðslum í Lífeyrissjóð sjómanna eru ekki tilbúnir til þess að auka iðgjöld sín til þess að Lífeyrissjóður sjómanna greiði mönnum örorkubætur sem eru þó þannig líkamlega á sig komnir að þeir geta sinnt öðrum störfum, eru jafnvel í fullri vinnu annars staðar og taka um leið fulla örorku út úr Lífeyrissjóði sjómanna. Þeir eru ekki tilbúnir til þess. Það er óréttlátt. Það er ekki tilgangur lífeyrissjóðanna.