Ríkisreikningur 1989

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 19:20:00 (6353)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég dreg ekki í efa að það þskj. sem við höfum hér í formi ríkisreiknings 1989 er hið áreiðanlegasta plagg. Ég hef þó skrifað undir nál. um reikninginn með fyrirvara og hyggst ég nú gera grein fyrir þeim fyrirvara.
    Eins og svo oft áður stöndum við þingmenn frammi fyrir gerðum hlut. Hér á ég við ríkisreikning ársins 1989. Ekki stóðust fjárlög þá frekar en áður og munu trúlega ekki standast betur fyrir yfirstandandi ár. Þau fjárlög, þ.e. fyrir árið 1992, eru hins vegar ekki til umræðu nú. Umræðan er búin, fjárlög afgreidd og yfir stendur framkvæmd þeirra. Reynslan mun svo skera úr um gildi fjárlaga þessa árs því að við eigum eftir að fjalla um enn ein fjáraukalög og að síðustu fáum við svo ríkisreikning í hendur.
    Það er ýmislegt sem stingur í augu við skoðun ríkisreiknings árið 1989. Ég ætla að drepa á nokkur atriði í máli mínu hér á eftir. Á því ári voru í fyrsta sinn afgreidd tvenn fjáraukalög. Samtals veittu þau greiðsluheimildir fyrir 9,6 milljörðum kr. til viðbótar við fjárlög ársins. Afgreiðsla reikningsins er nú nokkuð frábrugðin því sem áður var en þá þurfti að samþykkja fjáraukalög samhliða samþykkt ríkisreiknings. Það sem einnig er frábrugðið ríkisreikningum fyrri ára er það að nú eru í fyrsta sinn færðar til gjalda ýmsar eldri skuldbindingar ríkissjóðs þó svo að þær hafi ekki komið til greiðslu á árinu. Það þýðir að ríkisreikningur er ekki sambærilegur við fjárlög ársins sem samin eru á greiðslugrunni.
    Þá veldur það einnig, að mér finnst, vissum erfiðleikum við skoðun reikningsins að efnahagsreikningur hans er færður þannig að þær fjárveitingar sem valda eignamyndun eru ekki eignfærðar en skuldbindingar á lánum sem tekin eru til að fjármagna slíka eignamyndun eru færðar skuldamegin á efnahagsreikning. Þetta veldur því að efnahagsreikningur gefur í raun ekki rétta mynd af efnahag ríkisins. Skuldir virðast ævinlega meiri en eignir. Ég vil þó taka fram að þetta mun vera í samræmi við alþjóðlega venju samkvæmt því sem yfirskoðunarmenn ríkisreiknings segja. En þeim mun nauðsynlegra er að með fylgi listi yfir allar eignir ríkisins. Hins vegar er með þessu betur hægt að gera sér grein fyrir skuldastöðu ríkisins á hverjum tíma og hve mikið skuldir aukast á milli ára. Þær aukast t.d. um 100% milli áranna 1988 og 1989 eða úr 82,4 milljörðum í 162,6 milljarða. Ef tekið er tillit til breyttrar uppsetningar reikningsins, þá er aukningin 26,5 milljarðar eða 32%. Yfir höfuð hafa skuldirnar vaxið langt umfram vöxt lánskjaravísitölunnar á liðnum árum, á tímabilinu 1985--1989 um 642% en lánskjaravísitalan um 104%.
    Í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings er skýringin á þessu sögð vera uppsafnaður rekstrarhalli ríkissjóðs og að sjálfsögðu að verið er að taka inn allar skuldbindingar fram í tímann, m.a. í lífeyrismálum. Einnig hafa verið yfirtekin lán á þessu tímabili, m.a. í orkugeiranum og þar á ég við Rarik og Orkubú Vestfjarða.
    Ég hef áður í umræðum á Alþingi bent á það misræmi sem mér finnst vera í því að færa skuldir orkufyrirtækjanna til gjalda í rekstrarreikningi ríkissjóðs á sama tíma og í þeim samningum sem gerðir voru við þessi orkufyrirtæki, a.m.k. bæði Orkubúið og Rarik, er gert ráð fyrir að þau greiði skuldirnar til baka ef lausafjárstaða þeirra batnar að ákveðnu marki. Mér finnst það rangtúlkun í ríkisreikningi að ríkissjóður státi af því að hafa yfirtekið skuldir orkufyrirtækjanna og sé á sama tíma að innheimta afborgun upp í þær skuldir. Ég er ekki þar með að biðja um skýringu á þeim samningum. Það hef ég fyrir löngu kynnt mér og veit líka að þetta ákvæði, sem ég vísa til í samningnum, var í raun þröngvað þar inn af hálfu samningamanna ríkissjóðs. Það var því ekki staðið af heilindum að þessum samningi af ríkisins hálfu enda hafa ráðherrar hælt sér af þessari yfirtöku skulda orkufyrirtækjanna en látið undir höfuð leggjast að segja frá því um leið að þau ættu að greiða þessar yfirteknu skuldir til baka.
    Þá finnst mér ástæða til þess að íteka hér mínar fyrri athugasemdir við afgreiðslu fjárlaga á þessu ári um þær heimildir til útgjalda sem veittar eru með 6. gr. fjárlaga. Þar er um að ræða svo opnar heimildir til ráðstöfunar á fjármunum ríkisins og til eignakaupa án nokkurs eftirlits að með ólíkindum er að sífellt skuli viðgangast.
    Það hefur aldrei dugað að setja ákveðið hámark á útgjöld vegna 6. gr. heldur hafa ráðherrar ævinlega farið langt fram úr hámarkinu. Nýjasta dæmið er frá árinu 1991 þegar greiðsluskuldbindingar skv. 6. gr. fjórfölduðust frá fjárlögum.
    Í þessum ríkisreikningi er t.d. á bls. 21 í greinargerð nefnt það samkomulag sem þáv. fjmrh. gerði við Reykjavíkurborg um greiðslu á skuld Vegasjóðs við borgarsjóð vegna framkvæmda við þjóðvegi í þéttbýli. Þetta samkomulag hefur orðið tilefni mikilla umræðna, bæði í fjárlaganefnd og samgöngunefnd. Mjög eru skiptar skoðanir um gildi þess samkomulags lagalega séð. Samningurinn var gerður á árinu 1991, stuttu eftir að vegáætlun var samþykkt á Alþingi. Samningurinn var gerður með vísan í 6. gr. fjárlaga, nánar tiltekið grein 6.7 sem hljóðar svo:
    ,,Fjmrh. er heimilt að semja við sveitarfélög með yfir 10 þús. íbúa um greiðslu á hluta ríkissjóðs í kaupum eða framkvæmdum til þess að ljúka brýnum sameiginlegum verkefnum að tilskildu samþykki fjárveitinganefndar.``
    Samningurinn er síðan gerður og undirritaður af fjmrh. og samgrh. ásamt þáv. borgarstjóra, núv. forsrh. En það ákvæði 6. gr. að til þurfi samþykki fjárveitinganefndar var ekki uppfyllt. Samningurinn var aldrei lagður fyrir fjárveitinganefnd. En í greinargerð með fjárlagafrv. 1992 segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Á árinu 1991 var gengið frá samkomulagi við Reykjavíkurborg um uppgjör vegna lagningar þjóðvega í þéttbýli. Ákveðið var að skuldin, sem er rúmur milljaður, skyldi greidd af framlagi vegáætlunar til þjóðvega í þéttbýli. Á næstu þremur árum koma til greiðslu 370 millj. kr. af skuld þessari.``
    Nú kemur það furðulegasta. Þar sem engar athugasemdir voru gerðar af hálfu fjárln. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 er hægt að mati nokkurra aðila, sem um málið hafa fjallað, að líta svo á að fjárln. hafi samþykkt samkomulagið með samþykkt fjárlaga, þ.e. að fjárln. gerði engar athugasemd við þetta atriði í greinargerð við afgreiðslu fjarlaganna.
    Ég vil þó taka það fram að við afgreiðslu fjárlaga var eftir að endurskoða vegálætlun og ég held að flestir fjárlaganefndarmenn hafi litið svo á að þar yrði fjallað nánar um þau ágreiningsatriði sem þar væru og það væri hlutverk samgn. og engan veginn væri með fjárlögum verið að samþykkja einhvern samning sem aldrei hefði verið lagður fram. Ég vil ekki afgreiða þetta með svo einföldum hætti að með því að samþykkja fjárlög séum við að samþykkja allt sem stendur í greinargerð frv. Því er ég að færa þetta í tal nú að í ríkisreikningi 1989 er þetta nefnt í greinargerð. Ég lít ekki svo á að með samþykkt ríkisreiknings sé ég að samþykkja þennan samning af því að hans er getið í greinargerð með ríkisreikningi. Skuld sú sem

samningurinn getur um er hins vegar staðreynd og hlýtur að verða færð til gjalda samkvæmt þessari nýju uppfærslu á reikningnum en það á ekkert skylt við samþykkt á öllu sem stendur í greinargerð ríkisreiknings.
    Í framhaldinu finnst mér tækifæri til að skoða það hvernig samþykkt laga fer fram á hinu háa Alþingi og það vakna margar spurningar sem ég tel tímabært að við fáum svör við. Þegar frumvörp eru samþykkt sem lög eru þá greinargerðir með frv. orðnar að lögum um leið? Þegar formaður fjárln. flytur ræðu sína og gerir grein fyrir einhverju tilteknu atriði, er það atriði þá orðið jafngildi laga? Við getum tekið dæmi um að hann vísi til þess að fjármuna til uppbygginga á tækjum og búnaði einhverrar stofnunar sé aflað með umsókn úr einhverjum tilteknum sjóði. Getur þá tiltekin stofnun gengið í þann sjóð og byggt það á ræðu formanns vegna þess að það hafi lagagildi? Það vakna margar spurningar og ég veit reyndar ekki hver ætti helst að svara þeim.
    Ég vil að lokum taka fram að ég hef þann fyrirvara um samþykkt þessa ríkisreiknings að ég sé ekki að samþykkja greinargerð sem honum fylgir og þau lán sem yfirtekin eru vegna orkufyrirtækjanna og færð til gjalda séu þar með afskrifuð og séu ekki í útistandandi skuld við ríkissjóð. Ég vænti þess að áfram verði unnið að því að leiðrétta þá samninga.