Síldarverksmiðjur ríkisins

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 19:32:00 (6354)

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins hefur hlotið ítarlega meðferð og umræðu í sjútvn. Á fund nefndarinnar komu Þorsteinn Gíslason, Þórður Jónsson og Kristján Ingibergsson frá Síldarverksmiðjum ríkisins. Umsagnir bárust frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi ísl. fiskmjölsframleiðenda, hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps, hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Síldarverksmiðjum ríkisins, Sjómannasambandi Íslands, Starfsmannafélagi ríkisstofnana og Vélstjórafélagi Íslands. Þá barst álitsgerð, sem nefndin bað um, frá Hróbjarti Jónatanssyni hæstaréttarlögmanni.
    Ef frv. verður að lögum munu fyrst og fremst breytast þeir þættir í rekstri Síldarverksmiðja ríkisins að fyrirtækið verður hlutafélag sem í upphafi verður í eigu ríkissjóðs. Almenn lög um hlutafélög gilda um fyrirtækið. Ákveðið er að fram fari nákvæmt mat á eignum og skuldum Síldarverksmiðja ríksins til þess að nota sem viðmiðun við ákvörðun hlutafjár hins nýja hlutafélags. Heimilt verður að selja öðrum öll hlutabréf eða hluta þeirra í félaginu og einnig verður félaginu heimilt að selja einstakar fasteignir þess eða rekstrareiningar. Stjórn fyrirtækisins verður kosin á aðalfundi eins og um venjulegt hlutafélag sé að ræða. Ábyrgð og völd stjórnenda verða meiri en nú er. Sambandið á milli eigenda og stjórnenda verður skilvirkara og fyrirtækið hefur enga sérstöðu fram yfir aðra samkeppnisaðila á landinu og keppir á jafnréttisgrunni við þá.
    Það hefur lengi staðið til og verið rætt um að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag. Í tíð fyrrv. sjútvrh. var skipuð nefnd til að kanna þessi mál. Sú nefnd skilaði allítarlegu áliti en núv. sjútvrh. lét fara yfir málið og gera drög að frv. og lögum fyrir hið væntanlega hlutafélag.
    Nefndin náði ekki samkomulagi í sambandi við afgreiðslu málsins og skilar minni hluti nefndarinnar séráliti en meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði á frv. örfáar breytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að heimili og varnarþing hins nýja félags verði á Siglufirði. Þá er lagt til að stjórn fyrirtækisins verði skipuð fimm mönnum. Enn fremur er lagt til að félagið taki til starfa 1. ágúst á þessu ári í stað 1. maí eins og frv. gerir ráð yfir. Þá falla úr gildi lög um Síldarverksmiðjur ríkisins sem eru að stofni til frá 1938.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum. Undir álit meiri hlutans skrifa Matthías Bjarnason, formaður nefndarinnar, Magnús Jónsson, Guðmundur Hallvarðsson, Vilhjálmur Egilsson og Árni R. Árnason.
    Mér finnst rétt að taka fram að í áliti minni hlutans gerir hann frekari grein fyrir brtt. sínum en þar kemur greinilega fram að minni hlutinn er þeirrar skoðunar að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag. Minni hluta og meiri hluta greinir aftur á í nokkrum atriðum og sumum nokkuð veigamiklum.
    Um 7. gr. frv. varð nokkur ágreiningur í nefndinni en í henni segir að fastráðnir starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins skuli eiga rétt til starfa hjá nýja hlutafélaginu við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá því og þeir gegndu áður hjá verksmiðjunum. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn. Persónulega hefði ég talið að réttara hefði verið að breyta ákvæðum 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, bæði hvað varðar þetta mál sem og önnur. Ég er þeirrar skoðunar að þeir aðilar, sem eiga rétt á að halda störfum sínum þó breyting verði úr ríkisreknu félagi í hlutafélag, og þiggja það ekki, eigi ekki líka að fá biðlaun, eða

tvöföld laun. Um þetta held ég að ekki þurfi að vera skiptar skoðanir. Hins vegar kom greinilega fram í þeirri yfirlýsingu, sem ríkisstjórnin gaf í síðustu kjarasamningum, að ríkisstjórnin hét því að breyta ekki lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. En hins vegar lá fyrir að það ákvæði sem var í 7. gr. þessa frv. sem og ákvæði í frv. til laga um Sementsverksmiðju ríkisins, gerði ráð fyrir þessari breytingu. Þó að ég hefði sætt mig frekar við að þessi breyting hefði verið gerð með sérstakri breytingu á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna tel ég að úr því sem komið var hafi ekki verið um annað að ræða en að halda þessu ákvæði óbreyttu.
    Varðandi það að selja hluta af hlutabréfum á ákveðnu tímabili þá hygg ég að ef Alþingi tekur það spor að samþykkja þetta frv., að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag, eigi ráðherra og ríkisstjórn að hafa þar óbundnar hendur til að selja það hlutafélag eins fljótt og unnt er. Hins vegar varð nokkur ágreiningur í nefndinni um það hvort Alþingi ætti að kjósa stjórn þessa hlutafélags á meðan ríkissjóður ætti meiri hluta hlutafjár. Að sumu leyti má segja að það sé ekki óeðlilegt en að öðru leyti verður að fara eftir því fordæmi sem hefur skapast í þeim efnum. Það hefur verið með þeim hætti að viðkomandi ráðherra hefur skipað alla stjórnarmeðlimi eins og hann hefur rétt til. Ég nefni sem eitt nærtækt dæmi að þegar Útvegsbanka Íslands var breytt í hlutafélag fór ríkissjóður með það valdsvið að geta skipað fjóra af fimm stjórnarmönnum og það var á verksviði viðkomandi ráðherra að skipa alla fjóra stjórnarmenn. Þannig hefur þetta jafnan verið en þetta á samkvæmt frv. að vera ákvæði til bráðabirgða og ég treysti alveg núv. hæstv. sjútvrh. til að fara með það vald að það sé reynt að hafa það sem breiðastan grundvöll til þess að fyrirtækinu verði sem best stjórnað.
    Sjútvn. féllst á að breyta og leggur til, eins og ég sagði áðan, að um fimm manna stjórn verði að ræða. Nú er stjórn Síldarverksmiðja ríkisins sjö manna en í drögum að frv. um Síldarverksmiðjur ríkisins hf. sem prentuð voru með þessu frv. var lagt til að stjórnarmenn yrðu þrír. Öll nefndin varð sammála um að leggja til að því ákvæði yrði breytt og leggur til að stjórnarmenn verði fimm.
    Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta nál. en þó að leiðir hafi skilist á milli meiri hluta og minni hluta í sambandi við nokkur atriði þá legg ég áherslu á að ekki er ágreiningur um að Síldarverksmiðjum ríkisins verði breytt í hlutafélag heldur efnislegur ágreiningur um örfáar leiðir í þeim efnum.