Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 22:10:48 (6359)


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Í gær flutti hæstv. sjútvrh. skýrslu um stöðu sjávarútvegsins. Þar komu fram heldur dapurlegar staðreyndir sem hljóta að valda okkur alþingismönnum öllum áhyggjum. Því vildi ég víkja að þeim örfáum orðum þó vissulega hafi þegar verið gerð grein fyrir þeim frá ýmsum hliðum í umræðunni.
    Það er rétt hjá hæstv. sjútvrh. að hér er að vísu ekki um alveg ný tíðindi að ræða því að hann hefur áður flutt svipaðan boðskap. Sennilega er nú orðið á áttunda mánuð síðan hann birti alvarlegar upplýsingar um stöðu sjávarútvegsins á fundi norður á Akureyri. Síðan hefur hæstv. ráðherra ítrekað þetta, bæði með upplýsingum og ábendingum til ríkisstjórnarinnar um þörf aðgerða. En því miður hefur lítið gerst.
    Frestun afborgana sem ákveðin var af lánum um áramótin í vetur léttir vissulega greiðslustöðu sjávarútvegsins en bætir ekki eignarstöðu hans. Nýjar álögur sem þá voru lagðar á vega þar miklu þyngra og eins og rækilega hefur verið bent á skekkja þær gengið þannig að það er orðið sjávarútveginum óhagstætt eftir hinar þungu byrðar.
    Reyndar er liðið heilt ár síðan ríkisstjórnin ákvað alvarlegustu aðgerð sína skömmu eftir að hún tók við völdum en það var vaxtahækkunin. Þá var sagt að hún mundi ganga fljótt til baka, eftir 2--3 mánuði, en hún hefur haldist allt fram að þessu eða þangað til ríkisstjórnin sneri loksins við blaðinu og ákvað, eftir að vera knúin til þess af aðilum vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga, að taka skref til að ná vöxtum niður með handafli sem ekki mátti gera allt fram að þeim tíma. Þetta hefur því ekki borið eins góðan ávöxt og vonir stóðu til og fyrirheit höfðu verið gefin um. En ljóst er að það heldur áfram að síga á ógæfuhliðina hjá sjávarútveginum, sérstaklega hjá fiskvinnslunni og augljóst að á þeim 7--8 mánuðum síðan hæstv. sjútvrh. flutti fyrstu viðvörunarorð sín hefur eignastaða fyrirtækjanna stórlega versnað. Ég hef engar tölur um það hvað það nemur miklu en væntanlega getur hæstv. sjútvrh. gefið einhverjar upplýsingar um það. Væri vissulega fróðlegt að fá einhverjar hugmyndir um það hversu mikið eignastaða sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur versnað síðan í septembermánuði á síðasta ári.
    Eins og bent hefur verið á í þessum umræðum af fyrri ræðumönnum þá minnir þessi staða okkur óþyrmilega á atburði sem gerðust fyrir fjórum árum þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var við völd.

Þá höfðum við framsóknarmenn í marga mánuði flutt aðvörunarorð um það hvert stefndi í íslensku atvinnulífi og lagt mikla áherslu á að þar þyrfti að snúa við blaðinu. En því miður töldu sjálfstæðismenn þá þess ekki þörf. Þessi aðvörunarorð væru flutt af illum huga og það talin mikil skemmdarstarfsemi að láta slíkar skoðanir í ljós. Það væri verið að kljúfa ríkisstjórnina. Því miður var ekki farið eftir þessum ábendingum og það leiddi til þess að sú ríkisstjórn fór frá völdum.
    Mér fannst þessi tími vera hrein martröð, að horfa þannig á hvernig hallaði undan fæti fyrir íslensku atvinnulífi. Og því held ég að hæstv. sjútvrh. hljóti að líða illa í þeirri stöðu sem hann er nú í. Að vera mánuðum saman búinn að flytja aðvörunarorð og tillögur til úrbóta um stöðu sjávarútvegsins en þeim er annaðhvort ýtt út af borðinu af hæstv. forsrh. eða sendar í nefnd, eins og gerð hefur verið grein fyrir áður, þar sem samstaðan er ekki mikil og engar tillögur koma. Því miður var það svo að í ræðu hæstv. sjútvrh. bryddaði ekki á miklum tillögum um skyndilegar úrbætur eða tillögum sem gefa vonir um að þarna verði snúið til betri vegar fyrir atvinnureksturinn.
    Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það frá hæstv. sjútvrh. hversu lengi hann telur að fiskvinnslan í landinu geti búið við þau skilyrði að vera rekin með um 10% halla, atvinnuvegur sem þegar býr við svo erfiða eiginfjárstöðu og eignastöðu. Helsta vonin, sem hæstv. ráðherra gaf í ræðu sinni, var sú að á næstu fimm árum ætti að hagræða í greininni sem gæti aukið arðsemina um 10%. En hvernig verður komið fyrir atvinnuvegi sem býr við 10% rekstrarhalla eftir fimm ár? Trúa menn því virkilega að þá verði nokkurt fyrirtæki gangandi við slíkar aðstæður? Aðra von eygði hæstv. sjútvrh. líka. Það var töfraorðið, sem margir telja sem lausn allra mála, þ.e. samningurinn um EES. Ég held að sá samningur verði þjóðinni dýr ef menn taka slíka trú og telja að sá samningur muni bjarga okkur, þegar hann hafi verið gerður muni allt leika í lyndi.
    Ég skal ekki fara langt út í að ræða þann samning. En það sem snýr að sjávarútveginum held ég að verði dýru verði keypt. Það verður dýru verði keypt ef menn hugsa ekki um hvernig staða hans er vegna þess að menn telja að þegar samningurinn er genginn í gildi þá muni staða okkar verða svo góð. En samningurinn verður dýru verði keyptur af fleiri ástæðum fyrir sjávarútveginn að mínu mati. Þá er ég sérstaklega með í huga tvíhliða samninginn um sjávarútveg sem við eigum að gera við Evrópubandalagið. Það er sagt að þar sé um gagnkvæman samning að ræða því að við fáum loðnu í staðinn fyrir karfa. Við höfum nú heyrt hvert álit forstöðumanns Hafrannsóknastofnunar er á því máli. Það eru að mínu mati smámunir hjá öðru miklu verra í sambandi við þennan samning. Með honum er verið að semja við Evrópubandalagið um að afhenda því lykil að fiskveiðilögsögu okkar. Menn geta sagt að sá lykill sé ekki stór, það sé ekki mikill biti sem þarna er verið að afhenda. En við vitum að lykill hefur sama gildi hvort sem hann er stór eða lítill ef hann opnar dyrnar á annað borð. Og þarna er tvímælalaust verið að opna dyrnar fyrir Evrópubandalagið inn í fiskveiðilögsögu okkar og það verður áreiðanlega mikill þrýstingur á að fara inn um þær dyr þegar þær hafa einu sinni verið opnaðar.
    Ég tel því að það sé mikil tálsýn að telja að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið muni bjarga sjávarútveginum á Íslandi. Satt að segja þarf sterkari rök en ég hef enn þá fengið til að sannfæra mig um að það muni bjarga efnahagsmálum okkar að tengjast efnahags- og atvinnusvæði þar sem 10% atvinnuleysi er viðvarandi. Hversu dýrt verður það þjóðinni ef slíkt ástand kemur í kjölfar þess að við gerumst aðilar að þessum samningi? Ég skal ekki að þessu sinni fjölyrða frekar um þessa hlið. En vegna ummæla hæstv. sjútvrh., að samningurinn við EES væri töframeðalið fyrir íslenskan sjávarútveg, vildi ég flytja þessi aðvörunarorð.
    Á þessari stundu er það að sjálfsögðu fyrst og fremst spurningin til sjútvrh.: Ætlar hann að sætta sig við það áfram að ekki sé hlustað á tillögur hans um tafarlausar aðgerðir á stöðu sjávarútvegsins eins og hann krafðist að framkvæmdar yrðu í byrjun desembermánaðar sl.? Óttast hann ekki að sagan endurtaki sig fyrir hann ef hann sættir sig við það til lengdar að þannig sé farið með orð hans og tillögur? Það hefur komið skýrt fram að stjórnarandstaðan er reiðubúin að styðja við bakið á honum til að leita leiða til úrbóta. Ég vonast til þess að hann vilji þiggja þá aðstoð til að koma í veg fyrir það slys sem það yrði fyrir þjóðina ef hallaði meira undan fæti fyrir sjávarútveginum, sérstaklega fiskvinnslunni, en orðið er. Augljóst er að hver vika sem líður við þessar aðstæður er þjóðinni dýr. Og ég vonast til þess að hæstv. sjútvrh. sjái líka hversu mikið er í húfi fyrir hann sjálfan að sagan endurtaki sig heldur ekki hvað það varðar.