Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 23:02:33 (6361)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Ég þarf ekki að halda langa ræðu vegna þess að hæstv. sjútvrh. hefur gert mjög glögga og yfirgripsmikla grein fyrir málinu og reyndar hefur margt það sem um hefur verið spurt borið hér á góma áður og ég hef sjálfur svarað spurningum af því tagi sem hafa verið reifaðar áður.
    Varðandi það atriði sem hv. 8. þm. Reykn. nefndi sérstaklega um handaflsaðgerðir í vaxtamálum, þá er stutt síðan ég svaraði nákvæmlega sams konar spurningum frá hv. 11. þm. Reykv. í hinum svokölluðu óundirbúnu fyrirspurnum og reyndar hef ég gert það síðar. Það hefur glöggt komið fram að verkefni okkar var, og það héldum við mjög fast við, að skapa skilyrði þess að vaxtastig í landinu mætti fara lækkandi. Við settum ákveðnar forsendur fyrir þeim skilyrðum. Þær forsendur gengu upp og þess vegna gat vaxtastigið farið lækkandi.
    Hv. þm. nefndi sérstaklega Landsbankann og sagði eða gaf séð það að við hefðum haft mikil afskipti af þeim málum að undanförnu. Ég hygg að það liggi fyrir viðtal við mig varðandi það efni og það viðtal er ekki í þeim dúr nákvæmlega sem hv. þm. gaf til kynna að í því fælist.
    Ég nefndi það sérstaklega að þær kröfur yrðu gerðar til Landsbankans af hálfu allra í þjóðfélaginu að hann stæði við þær yfirlýsingar sem hann hefði gefið. Það eru ekki afskipti af málefnum bankans í sjálfu sér. Það er svo sjálfsagt, fyrst bankinn gaf yfirlýsingar um tilteknar aðgerðir í vaxtamálum, að gera þá kröfu að hann standi við þær yfirlýsingar. Ég sagði jafnframt að hér væri um vanda að ræða vegna þess að það rekst dálítið hvað á annars horn hjá okkur öllum. Í fyrsta lagi er því haldið mjög að mönnum að ekki megi verða samráð um vexti en jafnframt er til þess ætlast að vextir allra bankanna séu nákvæmlega þeir sömu. Þetta fer ekki mjög vel saman.
    Hv. 8. þm. Reykn. spurði jafnframt hvort það ætti að heimila eða líða að vaxtastig bankanna væri annað vegna þátttöku þeirra í sjávarútvegi og þarna væri mikilvægt að menn vissu hver væri stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum gagnvart þessum þætti sérstaklega. Þannig vill til að ég kom örlítið inn á þetta í mínu svari í blaðaviðtali og gagnvart Landsbankanum þá er núverandi sjávarútvegsstefna ekki vandinn. Það er sjávarútvegsstefna liðinna ára og fiskeldisævintýrið frá liðnum árum sem verða til þess að sá banki þarf að leggja fyrir 100 millj. kr. á mánuði hverjum til að mæta töpum. Það er vandi þessa banka.
    Hv. þm. hefur komið víða við varðandi atvinnulífið og vextina og það hafa reyndar aðrir gert. En það er fróðlegt að skoða það svar sem gefið var vegna þess að iðulega er sagt að núv. ríkisstjórn sé ríkisstjórn gjaldþrotanna, eins og hv. fyrrv. forsrh. nefndi í eldhúsdagsumræðum í gær. Þegar tekin eru saman gjaldþrot á Íslandi á árunum 1987--1991 koma mjög fróðlegar tölur í ljós miðað við þessar fullyrðingar. Gjaldþrotum hefur nefnilega fjölgað stórkostlega frá 1987--1990. Þeim fjölgar mest á því tímabili sem hv. 8. þm. Reykn. sat í stól fjmrh. Ég er ekki að sakast við hann um það efni. En þeir sem halda því fram að þessi ríkisstjórn sé ríkisstjórn gjaldþrota ættu að skoða þessar tölur afskaplega vel.
    Hv. þm. sagði líka að mikilvægt væri fyrir fyrirtækin og þá sem í fyrirtækjunum störfuðu að sjá heildstæða sjávarútvegsstefnu til að geta horft fram í tímann, gert áætlanir, byggt upp. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. En þetta er ekki nýtt vandamál. Á aðeins örfáum árum, sex til átta árum, hefur farið fram samfellt hringl einmitt í þessum mikilvæga málaflokki. Menn hafa verið að þreifa sig áfram. Ég er ekki heldur að saka einn eða neinn í erfiðri stöðu. Menn hafa verið með aflamörk, sóknarmörk, skrapdaga, krókaleyfi, smábáta inni, smábáta úti o.s.frv. og aldrei hafa menn getað vitað frá ári til árs við hvað þeir mundu búa í þessum mikilvæga málaflokki. Við skulum horfa til baka til kosninganna sem voru fyrir rúmi ári síðan en þá var mjög haft á orði að sjávarúvegsstefnan hjá ýmsum flokkum væri óljós. Því var mjög haldið að mér og mínum flokki að sú sjávarútvegsstefna sem við vildum færa fram bæri ekki í sér hrein og augljós sannindi og jafnvel að þar stangaðist á í málflutningi einstakra frambjóðenda. Því var líka haldið fram um sömu stefnu Alþb. Sú stefna var afskaplega illskiljanleg. Stundum dinglaði Alþb. yfir á svið Kvennalistans, stundum yfir á svið hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar og stundum daðraði Alþb. örlítið við stefnu Alþfl. Alþfl. hafði nokkuð skýra stefnu í þessum kosningum. En því er ekki að neita að Alþfl. var

nokkuð einangraður í kosningunum varðandi þá stefnu. Enginn hinna stjórnmálaflokkanna lýsti því afdráttarlaust yfir, fjarri því, að hann styddi stefnu Alþfl. Það var með þessum hætti sem allir flokkarnir gengu til leiks í kosningunum og síðan til stjórnarmyndunarviðræðna.
    Ég minnist þess sérstaklega þegar hv. þm. gerði mikla tilraun til að endurlífga með einum eða öðrum hætti hina fyrri stjórn. Þá þvældist nú ekki EES fyrir honum. Hann sagði efnislega að það væri bábilja hjá formanni Alþfl. að þar sköruðust sjónarmið milli Alþb. og Alþfl. Meira að segja hann mundi sjá um Hjörleif, eins og það var orðað, hvorki meira né minna, í því málinu. Ekki virtist sjávarútvegsstefnan, hin stóra og mikla stefna heldur ætla að þvælast fyrir að hans mati ef þessir flokkar ætluðu að ná saman, fjarri því. Ekki lýsti hann því þó neins staðar með hverjum hætti þessir flokkar ætluðu að ná saman í þeim mikilvægu efnum. Hann gerði ekkert til þess, hvorki í kosningabaráttunni né annars staðar að láta fyrirtækin, fólkið í landinu hafa hreint borð.
    Það er við þessar aðstæður sem stjórnarflokkarnir komu að málinu. Þeir líta þannig á að um mjög mikilvægt mál sé að ræða, en þeir hafa aldrei leynt því að það þurfi heilmikið átak til að flokkarnir nái saman um endanlega niðurstöðu í málinu. Því hefur aldrei verið leynt. Málið er mjög vandasamt og flókið en meginmáli skiptir að það er vilji til að nálgast sameiginlega niðurstöðu. Og það er í anda þess vilja sem menn eru að vinna. Það er auðvitað fráleitt af hv. þm., og hann veit það, hann er það skynugur maður, að ætlast til þess að hér og nú verði endanleg formúla í þeim efnum gefin. Það er auðvitað alveg fráleitt og þingmaðurinn getur ekki í raun ætlast til þess að það verði gert. Við, hæstv. sjútvrh. og við aðrir sem um þetta mál höfum fjallað, höfum sagt að það verði lögð mikil áhersla á það á þessu ári að finna lausn sem flokkarnir geta vel við unað og það reynir mikið á flokkana og stjórnarsamstarfið. Það er ekki vafi.
    Ég verð því miður að hryggja hv. þm. með því að stjórnarsamstarfið er afskaplega gott og farsælt, gott samstarf milli manna og milli flokka. Það er ánægjulegt að mönnum hefur lærst vel á þessum skamma tíma að vinna saman og það hefur skapast gagnkvæmt traust á milli manna. Hvað sem líður pólitík er afskaplega mikilvægt að slíkt traust náist og festist í sessi og sem betur fer hefur það gerst á milli manna. Flokkarnir eru ólíkir um margt og þeir þurfa auðvitað að laga sig að lausn vandamála, slá báðir af eins og gengur en það hefur verið gert með málefnalegum hætti og án nokkurra undirmála í hverju máli og það er mikið fagnaðarefni. Þess vegna trúi ég því að þessir flokkar muni líka í þessu mjög svo erfiða máli, sem þeir nálgast báðir af hreinskilni, ná saman um niðurstöðu á endanum. Ég hef trú á því og það er auðvitað afskaplega mikilvægt fyrir flokkana og fyrir það samstarf sem fullur vilji er innan flokkanna beggja að megi haldast. Það hefur gríðarlegur árangur náðst á aðeins einu ári. Menn gengu til erfiðra verka sem menn vissu að væru ekki í bráð til vinsælda fallin en mundu verða það í lengd og menn hafa hvergi hvikað í þeim efnum eða látið mótbyr eða andstöðu buga sig og árangur blasir við. Verðbólgan er lægri en núll í þessum mánuði og stefnir í að verða sú lægsta sem þekkst hefur. Það tekst að vernda kaupmáttinn á samningstímanum, það tekst í fyrsta skipti að vernda kaupmátt hinna lægst launuðu án þess að menn berji sér stórkostlega á brjóst og hælist um. Allt þetta er mjög mikilvægur árangur og fast, traust og gott land fyrir stjórnarflokkana til að vinna sig áfram, ekki síst við lausn þýðingarmikilla mála í atvinnulífinu eins og sjávarútvegsmálin vissulega eru.