Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 23:35:41 (6368)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. gat þess að skuldir sjávarútvegsins væru um 100 milljarðar króna. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji hvort unnt sé að hagræða svo í atvinnugreininni að hún muni geta endurgreitt skuldirnar og hvort það sé sú stefna sem menn miði sig við að út frá því sé gengið að hún muni greiða þessar skuldir til baka, hvort að það muni takast.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um ummæli hans um að skipulagsvandinn sé höfuðvandi í íslenskum sjávarútvegi. Í kosningastefnuskrá Alþfl. er ekki vikið að því einu orði að skipulagsvanda í sjávarútvegi þannig að hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. hefur fundið upp eftir kosningar að eitthvað væri í sjávarútvegi sem heitir skipulagsvandi. Það eina sem fram kemur í kosningastefnuskránni er að mótun fiskvinnslustefnu þarf að taka mið af nauðsyn þess að efla byggðakjarna. Í ljósi þeirra orða sem hæstv. ráðherra lét falla áðan að kerfisbreytingin væri lausnin og benti á frystitogara sem dæmi þá hlýt ég að draga þá ályktun sem felur jafnframt í sér spurningu til hæstv. ráðherra: Er hann með þessu að boða að kerfisbreytingin, skipulagsbreytingin, feli í sér að fækka verði byggðarlögum á Íslandi? Það verði að fækka frystihúsum á Íslandi svo að það rúmist ekki frystihús í venjulegu sjávarplássi, sum þeirra verði án vinnslustöðvar. Þetta vildi ég að hæstv. ráðherra skýrði betur en fram kom.