Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 23:40:31 (6370)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Getur sjávarútvegurinn greitt til baka þær skuldir sem á honum hvíla? Við því er ekki til neitt eitt svar. Afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi er mjög misskipt. Sem betur fer eru sum sjávarútvegsfyrirtæki mjög öflug. Það lýsir sér í því að þau virðast hafa fjárhagslegt bolmagn til þess að kaupa sér veiðiheimildir, kvóta, í stórum stíl. Hluti af því fjármagni fer reyndar út úr greininni við það að kaupa suma út úr greininni, þannig að sum fyrirtæki geta það.
    Dæmið sem ég tók af frystitogurunum sýnir best hversu geysigóð arðsemi getur verið í sjávarútvegi þegar vel er á málum haldið. Hluti sjávarútvegsins getur áreiðanlega, ef ytri skilyrði eru góð, greitt upp skuldir sínar. Hins vegar er það staðreynd sem ekki þýðir að loka augunum fyrir að sama er hvað gert er, lenging skulda, skuldbreyting, lækkun vaxta, jafnvel aukið aflamagn mun ekki bjarga sumum fyrirtækjum, vegna þess að þau nást jafnvel ekki upp í núllið með þessum aðgerðum, þ.e. þeim verður ekki bjargað fjárhagslega, þær skuldir eru tapaðar. Það er hins vegar þáttur af fortíðarvandanum.
    Mun það leiða til byggðarröskunar og hafa djúpstæð áhrif á byggðastefnu? Það fer einnig eftir því hvernig á málum er haldið. Einn hv. þm. spurði: Er það stefnan að fækka byggðum? Það er reyndar stefnan í þeim skilningi að fækka sveitarfélögum, að sameina og stækka sveitarfélög og stefna að því með samræmdri pólitík, bæði í stjórnsýslukerfinu og samgöngukerfinu, að búa til stærri einingar í landinu, þ.e. öflugri samtengd sveitarfélög og stærri samtengd atvinnusvæði eins og hv. þm. er kunnugt um. Þessu þarf að beita með samræmdum hætti.