Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 00:15:49 (6373)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu um málefni sjávarútvegsins bæði um afkomu og rekstrarstöðu atvinnugreinarinnar og eins um þá þætti er lúta að fiskveiðistjórnun.
    Hv. 4. þm. Norðurl. v., sem var að ljúka máli sínu, lýsti því mati sínu að honum fyndist sem margt í fari núv. ríkisstjórnar minnti hann á samstarf Alþfl. og Sjálfstfl. sem kennt var við viðreisn og ég ætla ekki að gera neina athugasemd við þá samlíkingu. Hv. þm. lýsti því einnig yfir að hann hefði af þessu allverulegar áhyggjur. Ég skil það mætavel í ljósi þess að sú stjórn sat í 12 ár og ef allt fer á sama veg á þessi stjórn eftir að sitja um alllangt skeið og hafa tíma til þess að móta framvindu í íslenskum efnahags- og atvinnumálum. Ég hygg að flestir hv. þm. minnist þess að þau ár voru mikil umbrota- og framfaraár. Vissulega er það rétt sem hv. 8. þm. Reykn. hefur hér á orði í frammíköllum að á síðustu árum þeirrar ríkisstjórnar mætti sjávarútvegurinn mjög miklum erfiðleikum, gífurlegu verðfalli og einnig þeirri staðreynd að síldveiðarnar brugðust. Við þessum vanda vegna ytri aðstæðna var brugðist af mikilli festu. Við lok tímabilsins hafði stjórnin unnið bug á þeim vanda sem að steðjaði.
    Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að rifja upp verk fyrri ríkisstjórna en að gefnu tilefni frá hv. 4. þm. Norðurl. v. þykir mér um margt ágætt ef hann sér nú þegar sömu framfaramerki og sömu mögulegu lífslengd í störfum núverandi ríkisstjórnar sem kom fram í störfum viðreisnarstjórnarinnar á sínum tíma.
    Við höfum í þessari umræðu farið yfir stöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna í landinu. Ég þarf ekki að endurtaka þær tölulegu staðreyndir sem fyrir liggja. Það er deginum ljósara að um margt í þeim efnum eru hv. þm. í raun og veru býsna sammála þó að skeyti hafi flogið hér á milli manna. Flestir eru á einu máli um meginástæðurnar fyrir þessum vanda. Enginn dregur það í efa að meginástæðan er sú að við höfum þurft að horfast í augu við mjög verulegan aflasamdrátt. Í annan stað stöndum við frammi fyrir því að verð á helstu afurðum okkar á erlendum mörkuðum hefur farið heldur lækkandi og við búum þarf af leiðandi við verri markaðsskilyrði. Enginn dregur í efa að skuldir sjávarútvegsins eru mjög miklar og þetta eru þeir þrír höfuðþættir í vanda sjávarútvegsins sem við er að glíma. Ég hef ekki heyrt menn deila um þetta. Það hefur líka komið fram í máli hv. þm., bæði þeirra sem hér hafa talað af hálfu stjórnarliðs og stjórnarandstöðu, að allir flokkar í þinginu leggja höfuðáherslu á að viðhalda þeim stöðugleika sem tekist hefur að ná og má rekja til þjóðarsáttarsamninganna í febrúar 1990 sem nú hefur tekist að framlengja. Enginn hv. þm. hefur talið rétt eða skynsamlegt í þessari stöðu að gera nokkurn þann hlut sem raskar þessu. Allir þeir sem hafa talað hafa lagt á það mjög mikla áherslu að lækkun vaxta sé eitt af höfuðatriðunum í því að koma til móts við erfiða rekstrarstöðu sjávarútvegsins. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti lagt grundvöll að því að vextir megi lækka með mjög hörðum aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Þær hafa um margt verið umdeildar og við þurfum ekki að eyða mörgum orðum í að fara yfir það mál allt saman. Það eru fjölmörg atriði í ríkisfjármálaaðgerðunum sem hafa vakið deilur. En þær hafa haft það meginmarkmið að draga úr lánsfjáreftirspurn ríkissjóðs og opinberra aðila í þeim tilgangi að skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun. Því hefur ekki verið mótmælt að vextirnir eru nú lægri en þeir voru fyrir ári síðan, lægri en þeir voru þegar núv. ríkisstjórn tók við og raunvextirnir eru að byrja að lækka. Við búum við mjög lága verðbólgu, lægri en í helstu viðskiptalöndum okkar og þess er að vænta, ef okkur tekst, sem allar líkur eru á eftir að kjarasamningar voru gerðir, að viðhalda þessum stöðugleika, að okkur auðnist með þessum hætti að bæta samkeppnisstöðu atvinnugreinarinnar.
    Það hefur komið fram í ræðum allra hv. þm. að ég hygg sem hér hafa talað að þeir gera sér grein fyrir því eftir allan þennan mikla aflasamdrátt að fiskiskipastóllinn er stærri en svo að hægt sé að halda því fram að það sé eðlilegt jafnvægi milli sóknargetu flotans og afrakstursgetu fiskstofnanna. Það hefur komið skýrt fram í máli allra hv. þm. að þeir gera sér grein fyrir því að afkastageta fiskvinnslustöðvanna í landinu er mun meiri en sem nemur mögulegum veiðum okkar á hverju ári og hluti af því viðfangsefni sem

við stöndum frammi fyrir er að aðlaga atvinnugreinina að þessum staðreyndum. Menn gera sér grein fyrir því að við þurfum að veiða fiskinn með stærri skipum og vinna hann í færri vinnslustöðvum. Atvinnugreinin er að takast á við þennan vanda. Hér hafa verið nefndar tölur um það hvernig úrelding á sér stað í fiskiskipaflotanum og við höfum á síðustu mánuðum séð mjög verulegar breytingar í þessu efni. Við beittum okkur fyrir almennum aðgerðum til að auðvelda útgerðarfyrirtækjunum að takast á við þetta hagræðingarverkefni, skipulagsbreytingaverkefni eða hvaða nafn sem menn vilja gefa þeirri þróun. Þessi þróun er hins vegar nauðsynleg og það hafa verið gerðar ráðstafanir til að auðvelda hana. Við höfum fylgst með því að fyrirtæki í vinnslugreinum hafa verið að takast á við endurskipulagningu í rekstri og hún hefur verið auðvelduð m.a. með því að fresta afborgunum af lánum í tvö ár og með því að Fiskveiðasjóður hefur tekið þátt í því með fyrirtækjum að lengja lán þeirra fyrirtækja sem hafa verið að endurskipuleggja sinn rekstur. Allt miðar þetta að því að taka á vandanum í ljósi þessara aðstæðna og í ljósi þess meginmarkmiðs að viðhalda hér stöðugleika og tryggja það að þegar atvinnugreinin hefur gengið í gegnum skipulagsbreytingar verði rekin með eðlilegum og nauðsynlegum hagnaði. Með öðrum orðum hefur með almennum efnahags- og fjármálaaðgerðum verið reynt að skapa hér skilyrði til þess að atvinnugreinin styrkist á nýjan leik. Það hefur verið reynt með sérstökum stuðningsaðgerðum gagnvart atvinnugreininni sjálfri eins og frestun afborgana og stöðvun inngreiðslna í Verðjöfnunarsjóð og með nýjum ráðstöfunum um Úreldingarsjóð hefur reynt að hjálpa atvinnugreininni til að takast á við þessi verkefni. Hver hv. þm. á fætur öðrum hefur lýst því yfir að þeir geri sér allir fulla grein fyrir því að þessi vandi verði ekki leystur eins og hendi sé veifað með einhverri einni allsherjarlausn. Um þetta virðumst við allir vera sammála hvar í flokki sem við stöndum. Það hefur ekki komið fram ágreiningur um það. Með öðrum orðum eru menn að fallast á að það verði að taka á þessu viðfangsefni skref fyrir skref, taka á einu verkefni í einu eins og unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum og verður unnið að á komandi mánuðum. Allt eru þetta mjög mikilvæg verkefni sem vissulega er mikil ánægja að heyra að Alþingi vill fylgjast með og menn vilji leggja af mörkum í umræðum og umfjöllun um þessi mál í þeim tilgangi að fá hér almennan skilning og samstöðu um nauðsyn þess að treysta höfuðatvinnugrein þjóðarinnar.
    Annar þáttur umræðunnar hefur lotið að fiskveiðistjórnuninni og þeirri endurskoðun sem nú fer fram á þeirri löggjöf. Löggjöfin sjálf gerir ráð fyrir því að endurskoðuninni skuli lokið fyrir lok þessa árs. Þá ákvörðun tóku menn við setningu gildandi laga og ég geri ekki ráð fyrir því að þeir sem báru ábyrgð á þeirri lagasetningu séu að kvarta undan stöðu málsins því að enn er nokkur tími til stefnu í þessu efni og þeir, sem ábyrgð tóku á lagasetningunni, gerðu ráð fyrir því að sú endurskoðun gæti staðið til loka þessa árs. Enginn hefur dregið dul á að það er uppi ágreiningur milli núverandi stjórnarflokka í þessum efnum. Það var líka sams konar ágreiningur uppi á milli flokka í fyrri ríkisstjórn. Það er jafnvel ágreiningur uppi í öllum flokkum um fiskveiðistjórnunina og mismunandi sjónarmið sem fram koma. Allt þetta leitast menn við að sætta eftir fremsta megni. Það hefur verið unnið að þessari endurskoðun í samræmi við ákvæði núverandi laga og í samræmi við samkomulag núv. stjórnarflokka um það á hvern veg að þessari endrskoðun skyldi unnið. Það hafa verið haldnir reglulegir fundir með hagsmunaðilum í þessu efni, tveir fundir með hv. sjútvn. og það hefur komið fram af hálfu þeirrar nefndar, sem forustu hefur fyrir þessari endurskoðun, að á næstunni sé gert ráð fyrir tíðari fundum með sjútvn. þegar endurskoðunarstarfið hefur mótast meir en það hefur nú þegar gert.
    Ég hygg, herra forseti, að ég hafi vikið með almennum orðum að flestum þeim þáttum sem hér hafa komið fram í þessum umræðum. Vandi sjávarútvegsins við þessar erfiðu aðstæður verður ekki leystur í eitt skipti fyrir öll og verður ekki leystur í þessari umræðu en ég tel að hún hafi verið mjög mikilvægt framlag til umræðunnar sem við þurfum að fara í gegnum um þessar mundir um þennan höfuðatvinnuveg þjóðarinnar og gott framlag til þeirra starfa sem við þurfum að takast á við á næstu mánuðum.