Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 00:41:00 (6380)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :

    Herra forseti. Það eru útúrsnúningar hjá hv. 2. þm. Suðurl. að ég hafi talað um fá og smá skref. Ég talaði um að það væri nauðsynlegt að ákveða aðgerðir í skrefum, skref fyrir skref. Ég held því fram að það sem gert hefur verið í þessu efni séu allt stór skref til þess að taka á þeim gífurlega vanda sem við stöndum frammi fyrir. Menn munu varðandi þau skref sem eftir á að taka hugsa með nákvæmlega sama hætti.
    Það liggur í augum uppi og ég hygg að það hljóti líka að felast í orðum þeirra sem hér tala af fullri ábyrgð, þegar menn viðurkenna að skipastóllinn sé of stór og vinnslustöðvarnar of margar, að um leið og menn hafa náð meiri árangri í því að koma við hagræðingu, samruna og samstarfi fyrirtækja verður rekstrargrundvöllur þeirra sem eftir eru betri vegna þess að fjárfestingin nýtist betur en ella. Í því sambandi hafa menn velt upp þeirri hugmynd hvort hugsanlegt sé að koma við einhvers konar úreldingarstyrkjum í fiskvinnslu með svipuðu móti og gert hefur verið í útgerðinni. Við höfum rakið það áður og ég hef gert það fyrir mitt leyti í þessari umræðu. Á því eru ýmsir tæknilegir örðugleikar en ég hef samt talið nauðsynlegt að skoða þá hugmynd miklu nánar og kanna hvort hún geti verið þáttur í því að hjálpa atvinnugreininni við þessa aðlögun.