Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 00:44:40 (6382)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er að vísu rétt sem kemur fram hjá hv. þm. og áður hefur verið dregið fram að Þjóðhagsstofnun telur að fiskvinnslan sé rekin með 8% halla en sjávarútvegurinn í heild, samkvæmt sama mælikvarða er rekinn með 3,5% halla. Hér er enn um að ræða gamalt og nýtt vandamál, að hluta til tekjuskiptingarvanda innan atvinnugreinarinnar. Þegar við ræðum um vanda sjávarútvegsins í þessum skilningi styðjumst við yfirleitt við afkomu atvinnugreinarinnar í heild enda er eignaraðild að fiskvinnslufyrirtækjum og útgerðarfyrirtækjum mjög blönduð. Niðurstaðan af afkomumælingu á atvinnugreininni í heild er sú að hallinn sé nú 3,5%.