Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 01:13:26 (6385)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja umræðuna mikið en ég þakka fyrir hana. Ég held að þörf hafi verið á því að ræða þessi mál. Það hefði kannski verið nær að við hefðum fyrr í vetur tekið tíma til þess frekar en núna alveg undir þinglokin þó að ég sé út af fyrir sig ekki að segja að það hefði valdið neinum straumhvörfum gagnvart stefnu ríkisstjórnarinnar.
    Mér finnst að gusturinn hafi farið af hæstv. sjútvrh. Hann lét heyra í sér öðru hverju fljótlega eftir að hann tók við og fram á haustið og jafnvel í vetur um að það þyrfti aldeilis að taka á við stjórn mála sjávarútvegsins og það var þó það eftir af honum áðan að hann sagði að það yrðu stigin stór skref til þess að rétta stöðu sjávarútvegsins. Ekki get ég tekið undir þetta. Ætli stærstu skrefin hafi ekki verið í öfuga átt? Ætli það hafi ekki verið nokkuð stór skref stigin í öfuga átt fyrir sjávarútveginn með álögunum sem hafa verið lagðar á hann í vetur? Ég held að það sé a.m.k. öruggt að tekin hafa verið stærri skref aftur á bak en áfram.
    Ég vil taka undir þær óskir að sjútvrh. svari með hvaða hætti hann ætlar að vinna að því að rétta af þennan halla sem er fram undan á rekstri sjávarútvegsfyrirtækjanna. Það hefur komið fram hjá öðrum ráðherrum í kvöld að það sé ekki hugmyndin að gera neitt sérstakt fyrir þessa atvinnugrein til þess að hún verði bjargálna. Fram hefur komið frá aðilunum sjálfum, eins og stendur í Fréttabréfi samtaka fiskvinnslustöðva, þar sem þeir vitna til þess samkomulags sem gert er á vinnumarkaðinum, að forsendur samningsins, þ.e. miðlunartillögunnar, eru m.a. þær að gengi íslensku krónunnar verði stöðugt o.s.frv. Ég ætla ekki að lesa þetta en hér stendur eitthvað á þá leið að hægt sé að skilja það sem eins konar samþykki þessara aðila við samningnum og að þeir muni beyga sig undir hann eins og hann er. En það kemur líka fram í bréfi þeirra til sinna manna að lækkun vaxta og vaxtamunar sé algert lykilatriði til þess að hægt sé að búa við þessi skilyrði. Þeir láta líka koma fram og þar vil ég vitna orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Engum blöðum er um það að fletta að fiskvinnslan lítur nú til Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins og gerir að kröfu sinni að hann verði nýttur til að auðvelda henni að vinna sig út úr vandanum á næstu mánuðum.``
    Þarna á greinin inni 3 milljarða kr. á sama tíma sem hún skuldar um 1,5 milljarða. Ég held að full ástæða sé til að skoða alvarlega það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. var að tala um áðan, þ.e. að flytja tillögu í þinginu núna með það fyrir augum að nýta megi að einhverju leyti þessa fjármuni greinarinnar til þess að rétta af stöðu hennar. Ég held að það þurfi að gera fleira. Ég held að menn verði að horfast í augu við það að finna verður leið til þess að atvinnugreinin komist yfir núllið. Ef menn ætla sér ekki að gera neitt hlýtur illa að fara. Ég held að menn verði að taka á þeim vanda með einhverjum hætti. Ef menn treysta sér ekki til þess að halda aftur af gengishækkunum betur en gert hefur verið fram að þessu, eigum við þá að horfa fram á að gengið haldi áfram að hækka? Fiskvinnslan vonar að gengið lækki. Ætla menn að hafa á því algjöra gjörgæslu og ætla menn ekkert að koma til móts við greinina að öðru leyti?
    Mig langar til þess að minnast á það sem hæstv. utanrrh. sagði áðan um frystitogarana. Hann orðaði það eitthvað á þá leið að það væru til rekstrareiningar í sjávarútveginum sem skiluðu hagnaði þegar vel væri á málum haldið og þar var hann að tala um frystitogara. Hann talaði um að of mikil fjárfesting, sem væri illa nýtt í frystihúsunum, gerði þau illa samkeppnisfær og að í frystitogurunum væri möguleiki á að ná miklum árangri ef vel væri á málum haldið. Ég tel að þarna sé á ferðinni hlutur sem menn hafi ekki skoðað nægilega vel til þess að geta fullyrt um að þetta sé hagkvæm lausn. Að vísu hefur það komið fram að hægt hefur verið að reka fyrirtæki í greininni með miklum hagnaði. En ég held að skýringin á því sé að stærstum hluta sú að verið er að reka skipin á kostnað auðlindarinnar, þ.e. með því að þau hafa annars konar möguleika á að nýta sér kvóta sinn en önnur fyrirtæki í greininni og komast undan rekstrargjöldum sem menn hafa tínt til í umræðunni og bent á. Það þarf auðvitað að horfa á þá hluti. Ég held að að sumu leyti sé líka hægt að sjá merki þess nú þegar að þetta sé tímabundið ástand sem muni breytast fyrr en varir og menn munu þá standa frammi fyrir því að hafa keypt of mörg skip af þessu tagi sem nú

þegar hafa valdið verulega minnkandi atvinnu og eiga eftir að verða til þess að enn fleiri munu missa vinnuna.
    Stærsta breytingin frá því að ríkisstjórnin tók við eru hin nýju fiskvinnsluskip sem komið hafa til landsins. Þau hafa breytt sjávarútveginum verulega og eiga eftir að valda enn meiri breytingum.
    Það er ekki fyrirætlun mín að halda lengri ræðu. Ég óska eindregið eftir því að fá svör við því hvort menn séu tilbúnir að líta á Verðjöfnunarsjóðinn. Ég óska einnig eftir svörum hæstv. sjútvrh. um það hvort hann hafi fyrirætlanir eða hvort hann hafi kannski lagt allar fyrirætlanir á hilluna, um að rétta af stöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna frá því sem nú er.