Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 01:43:00 (6388)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það er tvennt sem ég vil aðeins nefna varðandi ræðu hæstv. utanrrh. Hið fyrra er umfjöllun hans um raungengisstig krónunnar. Ég held að hæstv. utanrrh. verði að tala aðeins varlegar þegar hann talar um að það sé fjarstæða og beinlínis röng meðferð talna að bera saman raungengisstigið 1988 og núna. Það er ekki svo fjarri lagi, hæstv. utanrrh., að bera það saman. Staðreyndin er sú að í töflu í nýjustu skýrslu Þjóðhagsstofnunar er það sýnt svart á hvítu að raungengisstigið á öndverðu ári 1992 er hið þriðja hæsta á sl. tíu árum. Aðeins tvisvar sinnum áður frá því fyrir 1980 hefur raungengi krónunnar á mælikvarða verðlags verið jafnhátt. Það er í stuttan tíma um áramótin 1981 og síðan í um eitt og hálft ár á fastgengistímanum frá því kannski skömmu fyrir áramót 1987 og fram á síðustu mánuði ársins 1988. ( Utanrrh.: Það er kjarni málsins.) Þá var að vísu raungengið hærra þegar hæst var á þeim tíma, en þetta er, hæstv. utanrrh., þriðja hæsta raungengisstig krónunnar í tólf ár og hefur verið hækkandi undanfarna mánuði.
    Hitt sem hefur verið fróðlegt að ræða, og verður að gera við betra tækifæri, er skondin lýsing hæstv. utanrrh. á útflutningsleyfamálum sínum þar sem hann talar um aðhaldsaðgerðir, að hafa veitt þessum krötum af og til útflutningsleyfi, sem hæstv. sjútvrh. vísaði út í ystu myrkur og kallaði gæðingakerfi sem væru óþolandi og handahófskenndar úthlutanir á leyfum af því tagi sem hafa valdið óróa á markaðnum og eru að mínu mati, og þar er ég sammála hæstv. sjútvrh., alversta blandan annars vegar af ríkisverndaðri einokun og hins vegar af skömmtunarkerfi til útvalinna manna. Annaðhvort einokun eða frelsi er mikið skárra heldur en þessi hryllilegi kokteill sem við höfum búið við að undanförnu.