Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 01:50:52 (6391)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Jú, reyndar. Utanrrh. hefur svarað því. Hann hefur svarað því á þann veg að nú hafi verið sköpuð skilyrði til þess, þar sem verðbólgumunurinn er okkur í hag, að lækka raungengið, lækka muninn í tilkostnaði fyrir innlenda framleiðslu í samanburði við keppinauta þannig að það er ekki út í bláinn. Það eru viss rök fyrir því að raungengið geti lækkað.
    Annað mál. Hv. 1. þm. Austurl. reynir enn að koma því orði á þann sem hér stendur að hann sé ekki orðheldinn og standi ekki við orð sín, sagðist reyndar halda að SÍF ætti í höndum sínum eitthvert bréf. Já, SÍF á í höndum sínum eitthvert bréf. SÍF á í höndum sínum bréf þar sem m.a. var gerð grein fyrir því hvaða skilyrðum þeir aðilar yrðu að fullnægja sem utanríkisviðskiptaráðuneytið mundi veita leyfi þannig að það er skjalfest að það fór aldrei á milli mála að ráðuneytið ætlaði að afsala sér leyfisveitingavaldinu. Það þvert á móti setti á blað hvaða reglur það gerði og hvaða skilyrði það setti fyrir slíkum einstökum leyfisveitingum þannig að það fór ekkert á milli mála og það er engin ástæða fyrir neinum misskilningi milli manna.