Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 01:58:16 (6395)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Við lok umræðunnar vil ég sem fyrsti þingmaður í hópi þeirra sem báðu um skýrslu um afstöðu ríkisstjórnarinnar í málefnum sjávarútvegsins þakka fyrir umræðuna og láta í ljósi þá skoðun að ég tel að hún hafi verið nauðsynleg og mjög gagnleg. Og er nú til umhugsunar fyrir stjórn þingsins hve réttmætt það var hjá okkur að knýja á um þessa umræðu.
    Í henni hefur komið skýrt fram, ég verð að segja því miður, að ríkisstjórnin hefur ekki neina stefnu hvað snertir þann 4 milljarða hallarekstur sem blasir við í sjávarútvegi á þessu ári. Það hefur komið skýrt fram hjá hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. að í þessu efni ætlar ríkisstjórnin ekki að aðhafast neitt. Í bráðavanda sjávarútvegsins á Íslandi, sem forustumenn sjávarútvegsins lýsa sem risavöxnum vanda á næstu mánuðum, hefur komið skýrt fram hér í kvöld að hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að gera neitt.
    Í öðru lagi hefur komið fram að hæstv. forsrh. hefur ekki hugmynd um hver sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar verður á næsta ári. Hæstv. forsrh. hefur ekki hugmynd um hver er eða verður stefna ríkisstjórnarinnar í fiskveiðistjórnun eða framtíðarskipulagsmálum veiða á Íslandi. Hann hefur hins vegar sagt að það sé góður andi í ríkisstjórninni og þar séu menn ekki undirförlir og hann vonist þess vegna til að komast út úr þessu, annað ekki. Eftir þessa löngu umræðu hér hefur þannig hvorki ríkisstjórnin né þjóðin hugmynd um hver stefna ríkisstjórnarinnar í skipulagsmálum sjávarútvegsins á Íslandi er.
    Í þriðja lagi hefur komið fram í umræðunum að ríkisstjórnin hefur viðurkennt að um 100 millj. kr. skuldasöfnun hefur átt sér stað í sjávarútveginum. Þrátt fyrir ítrekaðar spurningar hafa ekki fengist nein svör frá hæstv. ráðherrum um það hvernig þeir sjá að hægt verði að greiða þær skuldir. Þeir hafa verið spurðir að því hvort greinin eigi að greiða skuldirnar út frá núverandi rekstrargrundvelli sem ríkisstjórnin hefur búið til. Ekkert svar. Þeir hafa verið spurðir að því hvort grípa eigi til einhverra sértækra aðgerða til þess að greiða niður skuldirnar. Ekkert svar. Sé umræðan þess vegna lögð saman, þá er niðurstaða hennar sú að hæstv. ríkisstjórn hefur skilað auðu hvað snertir lausn á bráðavanda sjávarútvegsins. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki hugmynd um hvaða fiskveiðistefna verði ríkjandi á næsta ári og getur engu svarað um það hvernig eigi að glíma við 100 millj. kr. skuldasöfnun í sjávarútvegi. ( Gripið fram í: Milljarða.) 100 milljarða kr. skuldasöfnun í sjávrútvegi. Í ljósi þess að sjávarútvegurinn er grundvöllur íslenska hagkerfisins er auðvitað ærið merkilegt að ríkisstjórn sem tekur sjálfa sig alvarlega skuli skila auðu í þessum umræðum

þannig að þinginu lýkur í vor, þjóðin heldur út í sumarið og aðstandendur sjávarútvegsins horfa framan í vandamálin án þess að fá í raun og veru nein svör í þessum efnum.
    Það hefur líka vakið athygli mína að þrátt fyrir vasklega framgöngu í ræðustólnum hvað eftir annað í kvöld til þess að etja kappi við hv. þm. Halldór Ásgrímsson svaraði hæstv. utanrrh. ekki einu orði því sem að mínum dómi var þó grundvallarspurning og hv. þm. Halldór Ásgrímsson bar fram. Hún var þessi: Alþfl. hefur sett á oddinn nýja skipan fiskveiðistjórnar með kvótasölu og veiðileyfagjaldi. Látum liggja milli hluta hvort menn eru sammála eða ósammála þessu kerfi. En allir þeir hagfræðingar og sérfræðingar sem fjallað hafa um málið á undanförnum mánuðum hafa bent á að það væri ekki hægt að koma slíkri stefnu á nema með verulegri gengisfellingu um leið. Með öðrum orðum, hæstv. utanrrh., marktækir hagfræðingar og sérfræðingar í efnahagsmálum hafa bent á þá staðreynd að fiskveiðistefna Alþfl. gengur ekki upp nema með verulegri gengisfellingu. Nú segir hæstv. utanrrh. hins vegar: Gengisfelling er það vitlausasta sem menn geta lagt til. Ef mark er tekið á hinum fræðilegu kenningum og þeim mönnum sem eru helstir bandamenn Alþfl. í þessari orðræðu á opinberum vettvangi, þá er hæstv. utanrrh. um leið og hann kategórískt hafnar gengisfellingu með þeim hætti sem hann hefur gert ítrekað í kvöld að lýsa því yfir með óbeinum hætti að það sé enginn grundvöllur í íslenskum sjávarútvegi til að koma fiskveiðistefnu Alþfl. á. af því að sjávarútvegurinn og hagkerfið þoli ekki þá gengisbreytingu sem er hin fræðilega og efnahagslega forsenda veiðileyfagjaldsins og kvótasölukerfisins. Það eru auðvitað líka nokkuð merkileg tíðindi. Það verður þá ekki vandamál að ná saman í fiskveiðinefndinni ef Alþfl. er hættur við vegna þess að forsendan, gengisfellingin, komi ekki til greina. Að mínum dómi hefur enginn marktækur hagfræðingur komið fram á síðustu mánuðum og treyst sér til þess að rökstyðja að hægt sé að koma þessu kerfi Alþfl. á án þess að fella gengið. Og það hefur meira segja af ýmsum þeirra verið talinn helsti kostur þessara tillagna Alþfl. í fiskveiðistjórnun að með þeim væri í leiðinni hægt að leiðrétta rekstrarstöðu iðnaðarins og skapa útflutnings- og samkeppnisiðnaðinum hagstæðari rekstrargrundvöll með því að breyta genginu sem um langa hríð hefur verið iðnaðinum og samkeppnisgreinunum í óhag.
    Ég vildi þess vegna vekja athygli á því að þessari spurningu og athugasemd svaraði hæstv. utanrrh. ekki og kannski skiljanlega vegna þess að með málflutningi sínum um gengismálin í kvöld var hann í reynd að kippa stoðunum undan því að fiskveiðistefna Alþfl. gæti verið á dagskrá með alvarlegum hætti á næstu missirum og árum. Hún gæti að vísu verið á dagskrá sem teoría, fyrir klappliðið á flokksþinginu í næsta mánuði, sem hefðbundinn kafli í áramótagrein formannsins í Alþýðublaðinu og við og við í útvarpsumræðum en hún verður hvergi á dagskrá þar sem menn taka hvern annan í alvöru. Það er kjarni málsins. Þannig að hæstv. utanrrh. situr bæði uppi með búvörusamninginn og stefnu Halldórs Ásgrímssonar í sjávarútvegsmálum, hvort tveggja líklega allt kjörtímabilið. Það er eðlilegt að hæstv. utanrrh. sé pínulítið uppsigað við hv. þm. Halldór Ásgrímsson og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon vegna þess að þessir tveir fyrrv. ráðherrar minna ráðherrann óþyrmilega á að það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann, meira að segja og að öllum líkindum allt þetta kjörtímabil.
    Rétt er svo að geta þess í leiðinni að það erum ekki við í stjórnarandstöðunni sem höfum fundið upp það hugtak að vinnubrögð hæstv. utanrrh. í leyfaveitingum séu geðþóttaúthlutanir. Við eigum ekki höfundaréttinn á því hugtaki, þeirri nafngift, þeim stimpli og alveg óþarfi fyrir hæstv. utanrrh. að vera að agnúast út í okkur fyrir það. Höfundurinn að þessari einkunnagjöf í garð hæstv. utanrrh. er hæstv. sjútvrh. sem flutti hana á aðalfundi Íslenskra sjávarafurða nú nýverið þar sem hann fór satt að segja heldur háðuglegum orðum um þetta kerfi utanrrh. eins og lesa má í Morgunblaðinu 1. maí sl.
    Ég vona að hæstv. utanrrh. skili því til forsrh. í tilefni af vaxtaræðu forsrh. sem var á þann veg að enn ætti að halda sig við markaðinn, hann var ekki horfinn frá því að halda sig við markaðinn í vaxtamálum, að Landsbankinn heldur því fram og ég held að það sé rétt hjá Landsbankanum, að hann hafi lækkað vexti sína til jafns við lækkun vaxta ríkisbréfa á markaði hæstv. ráðherra. Ekki lækkun ríkisbréfa eins og þau eru tilkynnt í fjmrn. heldur á eftirmarkaðinum. Það er auðvitað vandinn í þessu máli að Landsbankinn getur með réttu haldið því fram að hann sé nú þegar búinn að lækka vextina jafnmikið og vextirnir á ríkispappírnum hafa lækkað að dómi markaðarins og þegar hæstv. forsrh. er svo að heimta meira eins og hann er búinn að gera í fjölmiðlunum undanfarna daga, þá er hann með handafli að krefjast þess að vextirnir verði lækkaðir vegna þess að markaðurinn hefur sagt að sú vaxtalækkun sem Landsbankinn hefur nú þegar framkvæmt dugi. ( Sjútvrh.: Er þingmaðurinn ekki ánægður með það?) Ég var ekki að lýsa neinni gildisafstöðu í því máli, hæstv. sjútvrh., ég var bara að lýsa staðreyndum. Það vill nú svo til að þegar menn eru að horfa á aðgerðir markaðarins í vaxtamálum, þá er hægt að skoða staðreyndir. Og aðgerðir markaðarins í vaxtamálum eru þær að lækkun á ríkispappírunum var 0,7%, ef ég fer rétt með. Lækkunin í Landsbankanum var líka 0,7% þannig að Landsbankinn hefur akkúrat fylgt markaðnum. Því geta þeir haldið fram með réttu og það er þess vegna sem ég sagði: Hæstv. forsrh. er að gera nákvæmlega það sama og hæstv. fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson gerði ,,gang på gang`` og var hæddur fyrir af Sjálfstfl. í þingsölum bæði fyrir og eftir myndun núv. ríkisstjórnar, að biðja um meiri vaxtalækkun en markaðurinn hefur ákveðið og láta framkvæmdastjóra Sjálfstfl. setjast í oddvitasætið í bankaráði Landsbankans og lækka vextina meira í samræmi við óskir hæstv. forsrh. Ég veit ekki hvort hægt er að hafa meira handafl eða flokksræði í vaxtamálum en framkvæmdastjóri flokks forsrh. taki að sér að framkvæma óskir hans í bankaráði Landsbankans.

    Að lokum fagna ég því, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. hefur húmor til þess að ávíta menn fyrir slæma mætingu í þinginu. Batnandi mönnum er best að lifa og sýnir það að honum er ekki alls varnað og enn lifir nú dálítið í gömlum glæðum. Ég vona að það verði til þess að við fáum oftar að eiga við hann orðastað því það er nú einu sinni svo að þegar hann tekur sig til munar dálítið um hann í stjórnarliðinu þannig að ég hef í kvöld ekkert saknað hinna sem setið hafa heima.