Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 02:14:49 (6397)



     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er skiljanlegt að þetta komi dálítið illa við hæstv. utanrrh. Fyrst seinna atriðið. Ég sagði einfaldlega að allir þeir fræðimenn sem hafa tjáð sig um málið á undanförnum missirum hafa bent á að gengisbreyting sé forsenda þess að hægt sé að koma á veiðileyfagjaldi eða kvótasölukerfi, hvaða nafni sem við köllum það, í sjávarútvegi á Íslandi. Hæstv. utanrrh. getur ekki hrakið það hér. Þegar hann fer svo mikinn í ræðustól um það hve gengisbreyting sé fáránleg aðgerð í íslensku efnahagslífi nú og þá væntanlega einnig á næstu missirum að óbreyttum aðstæðum hlýt ég einfaldlega að draga þá ályktun að sú forsenda sem fræðimenn hafa bent á sem nauðsynlega sé að dómi hæstv. utanrrh. óframkvæmanleg. Hæstv. ráðherra má kalla það málfundaæfingar ef hann vill. Mér finnst það ekki samboðið honum, svo ég noti hans orðalag. Má ekki taka inn niðurstöður fræðimanna í umræðunni, leggja þær saman við niðurstöður utanrrh. og fá út rökrétta útkomu? Ég tek hins vegar eftir því að ráðherrann er allt í einu kominn með orðalagið að þessa stefnu Alþfl. eigi kannski að taka upp í áföngum á löngum tíma. ( Utanrrh.: Það stendur í stefnuskrá Alþfl.) Ef það stendur í stefnuskránni, gott og vel. Þá er þetta kannski eitthvað sem á að koma eftir nokkur kjörtímabil, látum það vera. Þetta sem gert er varðandi Hagræðingarsjóðinn í ár er kannski fyrsti áfanginn.
    Virðulegi forseti, ég skal ljúka máli mínu. Það sem ég sagði um niðurstöður þessara umræðna var um það sem sneri að framtíðinni. Ég var ekki að draga saman niðurstöðu varðandi það sem sagt hefur verið um fortíðina, langtímaþróun í sjávarútvegi o.s.frv. heldur að draga saman niðurstöður varðandi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, hæstv. utanrrh. Og ástæðan fyrir því að ég gerði það var að það var eitt af þeim meginatriðum sem spurt var um í þeirri skýrslubeiðni sem hér liggur til grundvallar umræðunni, hæstv. utanrrh. Ég vænti þess að ráðherrann hafi lesið þá skýrslubeiðni.