Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 02:19:34 (6399)



     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þó ég vilji ýmislegt gera fyrir fornvin minn, hæstv. utanrrh., þá er mér ógerlegt að svara fyrir hann í þessu andsvari þó að það væri kannski efnislega rétt en þingsköpin leyfa það bara einfaldlega ekki að hann komi upp og svari fyrir sig. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson kaus að nýta sér andsvar gegn ræðu minni til að flytja þessa lýsingu á afstöðu hæstv. utanrrh.
    Ég er reiðubúinn til að samþykkja að það sé rökrétt hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að á því dæmi, sem ég var að leggja saman, annars vegar málflutning fræðimanna um gengisfellingu sem forsendu veiðileyfagjalds og hins vegar þá afstöðu utanrrh. um að gengisfelling kæmi alls ekki til greina, er auðvitað til önnur lausn en sú sem ég lýsti sem minni lausn, þ.e. að þá yrði veiðileyfagjaldinu ekki komið á. Það er rétt hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að það er til önnur lausn á þessu dæmi og það er einfaldlega að auka skattbyrðina og álögurnar á sjávarútveginn sem slíkan, breyta ekki genginu en taka upp veiðileyfagjaldið og þar með láta útgjöld sjávarútvegsins aukast allverulega án þess að nokkrar nýjar tekjur komi þar á móti. Það er rétt. En það væru auðvitað mikil tíðindi ef hæstv. ríkisstjórn næði saman um þá stefnu að stórauka skattbyrðar sjávarútvegsins á næstu missirum og árum.