Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 02:21:28 (6400)



     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að gefnum tilefnum er rétt að menn meðtaki guðspjallið nákvæmlega en það hljóðar svo: ,,Alþfl. telur koma til álita að þessar breytingar á fiskveiðistjórn og rekstrarskilyrðum verði gerðar á alllöngum tíma, t.d. á næstu tíu árum.``
    Hér er verið að marka langtímastefnu um breytingar á fiskveiðistjórnun og stefnu í sjávarútvegsmálum í heild sinni. Þá fer ekki á milli mála að samhliða upptöku veiðileyfagjalds, sem Alþfl. er meðmæltur, telur Alþfl. nauðsynlegt að gera samhliða ráðstafanir í almennum rekstrarskilyrðum, þar með talið í gengismálum. Þetta er sett í það samhengi að við erum hér að boða stefnu sem er ekki kollsteypa, sem er unnt að framkvæma á löngum tíma, eins og hér segir, allt að einum áratug. Svo stór er vandinn. Ég bendi á að hv. þm. hafa ekki lagt mikið fram í umræðum um það hvernig eigi að leysa skipulagsvanda í sjávarútveginum. Ályktanir beggja hv. fræðimanna sem hér hafa talað, prófessors dr. Ólafs Ragnars og hv. 1. þm. Austurl., eru báðar rangar. Ég vísa mönnum bara í textann.