Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 02:27:39 (6402)



     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það getur komið sér vel að hafa ævinlega handhæga kosningastefnuskrá Alþfl. og jafnvel Sjálfstfl. líka. Ég vil í lokaorðum taka undir það mat sem fram kom í ræðu hv. 8. þm. Reykn. á niðurstöðum þessarar umræðu hvað varðar svör frá fulltrúum hæstv. ríkisstjórnar. Þannig vill til að ég er farinn að kunna nokkuð vel þessa kosningastefnuskrá, Ísland í A-flokk, og ég vil gjarnan lesa aðeins meira úr þeim kafla sem fjallar um sjávarútvegsmál og koma þar að atriði sem hæstv. utanrrh. hljóp yfir en það er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Samhliða veiðigjaldinu telur Alþfl. nauðsynlegt að ráðstafanir í almennum rekstrarskilyrðum sjávarútvegs, þar með í gengismálum, komi í veg fyrir að gjaldtakan jafngildi skattlagningu á útveginn. Þannig væri mikilvægum áfanga náð í því að jafna starfsskilyrði innlendra atvinnuvega, t.d. innan sjávarútvegsins milli veiða og vinnslu og milli sjávarútvegsins og iðnaðarins.``
    Þetta stendur í kosningastefnuskrá 1991. Alþfl., Ísland í A-flokk á bls. 24. (Gripið fram í.) Það er ljóst að Alþfl. eða þeir sem hafa samið þessa kosningastefnuskrá, og væntanlega hefur flokkurinn samþykkt hana með einhverjum formlegum hætti, hafa komist að þeirri niðurstöðu og birt opinberlega að veiðileyfagjald verði ekki upp tekið öðruvísi en að skapa útgerðinni tekjur á móti þeim útgjöldum sem veiðileyfagjaldið kallar á. Það er ósköp eðlileg niðurstaða manna sem velta þessum málum fyrir sér að það dugi lítt að bæta við útgjöldum ef menn gera ekki jafnframt tillögur um að auka tekjur.
    Sjálfstfl. gerði sína kosningastefnuskrá líka og reyndar var það landsfundarsamþykkt sem hann setti fram í kosningabaráttuna þó svo hæstv. utanrrh. hafi sagt að þessi flokkur, sem hann líkti við mexíkanskan bófaflokk, hafi skilað auðu í kosningabaráttunni, þá skilaði hann samt bók upp á einar 43 blaðsíður. Það vekur athygli mína að í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram hefur ýmislegt af því sem Sjálfstfl. lagði áherslu á ekki verið nefnt af hálfu hæstv. sjútvrh. eða talsmanna Sjálfstfl., það atriði sem þeir hefðu í huga í náinni framtíð í aðgerðum eða við endurskoðun fiskveiðistefnunnar. Ég vil t.d. nefna og minna hæstv. sjútvrh. á að hér stendur á bls. 29, í kaflanum um sjávarútvegsmál, með leyfi forseta:
    ,,Forkaupsréttur aðila innan sama sveitarfélags varðandi sölu á veiðiheimildum verði tryggður svo sem unnt er.``
    Þetta atriði hefur hæstv. sjútvrh. ekki nefnt sem innlegg inn í stefnumarkandi umræðu og væntanlega stefnu ríkisstjórnarinnar í fiskveiðimálum eða fiskveiðistjórn.
    Hér stendur einnig, með leyfi forseta, og geta menn nú séð efndirnar því að það er þegar komið fram: ,,Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins verði lagður niður og við hlutverki Úreldingarsjóðs fiskiskipa taki aldurslagatrygging sem úthlutar fjármagni gegn mótframlagi úr ríkissjóði.`` Það stendur hér, virðulegi forseti, ,,gegn mótframlagi úr ríkissjóði`` og áðurnefndum tekjustofnum. ,,Fiskvinnslunni verði heimilað að mynda eigin sveiflujöfnunarsjóði án þátttöku launþega en Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins verði lagður niður.`` Þetta er bara heilmikið. Flokkurinn hefur sjútvrh. og hann hefur forsrh. og hann hefur fjmrh. Hann hefur öll tök á málinu. Hver var það sem þvældist fyrir stefnu Sjálfstfl., landsfundarsamþykkt Sjálfstfl.? Var það hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, sem braut á bak aftur þessa yfirlýsingu landsfundar Sjálfstfl.?
    Þó að hér sé eitt atriði, sem ekki hefur beinlínis tengst þessari umræðu, vil ég gjarnna minna á það af því að það hefur verið þó nokkuð rætt og tengist sjávarútvegsmálum. Við skulum ekki gleyma því að það eru menn sem starfa að sjávarútvegsmálum, sjómenn. Hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Sjálfstfl. telur að Landhelgisgæsla og öryggismál sjómanna hafi setið um of á hakanum hjá núv. ríkisstjórn og að áform um kaup á nýrri og stærri björgunarþyrlu með afísingarbúnaði beri að hrinda undanbragðalaust í framkvæmd.`` Þar höfum við það.
    Síðan er eitt atriði enn varðandi sjómennina því að það er aldrei of vel um það hugsað. Hér stendur, með leyfi forseta: ,,Virðisaukaskattur af flotbúningum verði felldur niður.``
    Ýmislegt er nú það sem flokkarnir láta frá sér fara um sjávarútvegsmál og hagsmuni þeirra sem að þeim málum vinna og svo merkilegt er að báðir þessir flokkar, og þó sérstaklega Sjálfstfl., hafa haft mjög góð tök á því að koma þessum málum í framkvæmd sem ég hef verið að vitna hér til. En ýmist hafa menn látið það ógert eða unnið hið gagnstæða svo það er náttúrlega ekki rétt hjá hæstv. utanrrh. að Sjálfstfl. hafi skilað auðu. Það var kannski ekki auður seðillinn sem hann skilaði. Það stóð allt annað á honum en menn héldu, það er önnur saga. Það segir svo dálítið um stefnufestu hæstv. utanrrh. að hann skuli kaupa þetta og velja sér slíkan flokk sem samstarfsaðila.
    Að lokum, eftir stendur ómótmælt og allir eru sammála um það: Greinin skuldar mikið. Hún skuldar meira en árstekjur sínar. Greinin er rekin með tapi og ekkert útlit er fyrir að það tap hverfi. Ekkert gefur okkur ástæðu til þess að ætla að útgjöld muni lækka svo að um muni upp í þetta tap eða tekjur muni aukast að sama skapi. Við stöndum því frammi fyrir mjög erfiðri stöðu í sjávarútvegi. Við höfum því miður ekki heyrt nein úrræði frá hæstv. ríkisstjórn sem hún hyggst grípa til á næstu mánuðum svo við erum í raun og veru í þeirri stöðu sem menn voru í vorið 1988 þegar útgjöld í atvinnugreininn voru meiri en tekjur og menn tóku ekki ákvarðanir til þess að koma þar jafnvægi á. Sama staða er uppi núna og enn fáum við engin svör um ákvarðanir eða ráðstafanir sem ríkisstjórnin ætlar að grípa til til þess að jafna muninn milli tekna og gjalda.