Svör við skriflegum fyrirspurnum

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 13:33:00 (6404)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mjög fer að styttast þetta þinghald og einungis fáir dagar eftir áður en áformað er að ljúka reglubundnu þinghaldi þennan vetur. Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að vekja athygli forseta á því að ég hef enn ekki fengið svar við þremur skriflegum fyrirspurnum sem ég lagði fram fyrir allnokkru. Það er í fyrsta lagi fsp. til hæstv. fjmrh., um greiðslu opinberra gjalda með skuldabréfi, sem ég lagði fram þann 17. mars. Það er í öðru lagi fsp. til hæstv. menntmrh., um innheimtu og ráðstöfun sérstaks eignarskatts, sem ég lagði einnig fram 17. mars. Og það er í þriðja lagi fsp. til hæstv. viðskrh., um vaxtakjör og þjónustugjöld banka og sparisjóða, sem ég lagði fram 25. mars.
    Það er áskilið í þingsköpum að skriflegt svar við skriflegri fsp. skuli berast innan 10 virkra daga frá því að hún var lögð fram. Ég hef allan skilning á því að ekki sé ævinlega hægt að standa við þau tímamörk til fullnustu og geri því ekki athugasemdir við þó lengri tími líði en hitt vil ég láta koma fram, virðulegur forseti, að mér þykir það vera orðinn ærið langur tími þegar menn eru komnir jafnvel upp í fjórfaldan þennan tíma.
    Ég vil því inna hæstv. forseta eftir því hvað líði svörum við þessum fyrirspurnum og bendi á að ein þessara fyrirspurna hafði áður verið lögð fram í nál. efh.- og viðskn., nokkru fyrir 17. mars, þar sem óskað var sömu upplýsinga, en þær upplýsingar höfðu ekki borist nefndinni þegar 3. umr. þess máls fór fram sem um var rætt. Því lagði ég fram þessa fyrirspurn þannig að aðdragandinn sem er að því að biðja um þær upplýsingar sem ég hef beðið hæstv. menntmrh. um er miklu lengri en sá dagur gefur til kynna, 17. mars, þegar ég lagði fram þessa fyrirspurn.