Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þinglok

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 13:58:43 (6411)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er rétt hjá formanni menntmn. að mál þetta var rætt í menntmn. í gær, þ.e. frv. til laga um fullorðinsfræðslu, og þar setti ég fram það sjónarmið að það væri nauðsynlegt að vinna í þessu máli og afgreiða það nú fyrir þinglok, einkum ef hugmyndir væru um að afgreiða frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu sem er annar þáttur fullorðinsfræðslu í landinu sem hefur verið til meðferðar hér í þinginu og mikil gagnrýni verið uppi hvernig á því máli hefur verið haldið að því er varðar tengsl á milli þessara þátta. Ég ítreka því það sjónarmið, sem tekið var undir með þeim hætti sem formaður menntmn. nefndi, að í þessu máli verði unnið og þetta mál verði lögfest nú fyrir þinglok og ég tel að hitt málið eigi ekki að fara hér áfram ef ekki verður gengið frá þessu máli, annars eigi það að bíða, varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu.