Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þinglok

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 14:01:40 (6413)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. Fyrst varðandi frv. til laga um vernd barna og ungmenna, þá skil ég ósköp vel að hv. þm. skuli vilja taka sér góðan tíma til að skoða það eins og kostur er. Um málið var mjög víðtæk samstaða orðin á síðasta þingi, en síðan hefur auðvitað margt breyst. En ég bendi á að það er verið að afgreiða hérna baralög og barnasáttmála og það er verið að ákveða að vísa frv. til laga um umboðsmann barna með tiltölulega jákvæðum hætti til sifjalaganefndar til meðferðar eða ríkisstjórnarinnar þannig að ég hefði talið fara mjög vel á því að við gerðum svo vel við börn að við gætum afgreitt þetta allt, en það er auðvitað ekki víst að það takist og vissulega er rétt hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að það er gagnrýni vert að málið skuli ekki hafa komið inn í þingið fyrir löngu vegna þess að það er flutt nákvæmlega óbreytt eins og það var frágengið í þinginu í fyrra, fyrir réttu einu ári, þannig að það hefði auðvitað átt að vera hægt að flytja það hér í þinginu strax í október til nóvember.
    Varðandi frv. um fullorðinsfræðslu, þá er aðalatriðið að frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu er orðið að lögum þannig að það þarf að afgreiða fullorðinsfræðslufrv. til þess að það sé jafnvægi í þessum málum og ég hef ekki heyrt betur en hæstv. menntmrh. hefði áhuga á því líka.
    Ég tel það mjög miður hvernig hefur farið í sambandi við frv. um vernd barna og ungmenna, bæði flutningstíma þess og líka hvernig því hefur verið vísað til nefndar. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að vísa því til einnar nefndar í fyrra og annarrar í ár. Ég held að það eðlilega hefði verið, án þess að ég sé að gagnrýna félmn. á nokkurn hátt, að vísa málinu til menntmn., en niðurstaðan er þessi og ég vona að hv. félmn. geti lokið málinu á þessu þingi.