Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að spyrja um framhald á umræðum um skýrslu Byggðastofnunar sem var hér til umræðu ef ég man rétt á sl. ári og ég held að ég muni það einnig rétt að þegar þeirri umræðu var frestað hafi hv. 2. þm. Vestf. verið í miðri ræðu sinni. Nú er það svo að hæstv. forsrh. hefur kynnt okkur þingmönnum og þjóðinni allri í umræðum úr þessum stól að hann hafi séð ástæðu til að bera sig upp við erlenda stjórnmálamenn út af því hversu vinnubrögð okkar alþingismanna séu léleg. Þess vegna vildi ég vinsamlega fara fram á það við hæstv. forsrh. að hann gerði okkur þingmönnum grein fyrir þeirri starfsáætlun sinni hvenær hann hygðist ljúka umræðu um skýrslu Byggðastofnunar.