Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ef menn voru að nota þetta tækifæri til þess að biðjast afsökunar heima í héraði eins og hv. þm. nefndi, þá vek ég athygli á því að skýrsla sú sem hefur tekið þennan langa tíma að ræða var skýrsla Byggðastofnunar meðan stofnunin heyrði undir síðasta forsrh., ekki undir mig, þannig að hafi menn þóst hafa tilefni til þess að biðjast afsökunar á einhverju í því efni hafa þeir væntanlega átt við þann ágæta mann. Ég var ekkert að finna að því að hv. 2. þm. Vestf. fengi að flytja sínar ræður. Ég vakti hins vegar athygli á því að hann hefði, hygg ég, talað í fast að því tvo tíma og sagðist vera rétt að byrja ef ég man rétt. Ég vek athygli á því að hann á ótrúlega erfitt með að ljúka sínu máli, maður sem hefur talað í tvo tíma og er þá rétt að byrja sína ræðu. Ég held að það sé engum til gagns, hvorki þingi né þjóð, að ræður séu fluttar af slíkri tímalengd.