Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja orðið nokkuð vandlifað á hv. Alþingi fyrir þá þingmenn sem reyna að taka þátt í þingstörfum með eðlilegum og venjulegum hætti og reyna að sýna stjórnarliðum, ef þessir þingmenn eru í stjórnarandstöðu, sanngirni og væntanlega gagnkvæmt. Satt að segja man ég ekki eftir því að hafa orðið fyrir því sem þingmaður hér að hafa fengið yfir mig viðlíka gusur og þær sem hæstv. núv. forsrh. hefur tamið sér að sulla yfir okkur. Ég er alveg viss um að það er ekki skynsamlegt af hans hálfu að gera þetta, en ég skil ekki hvað honum gengur til. Vill hann stefna þinginu í uppnám? Vill hann koma málum í óefni? Vill hann hindra afgreiðslu mála? Er hann vísvitandi að niðurlægja alþingismenn og Alþingi? Til hvers er hann að því? Í þágu hvers er hann að því? Í þágu ríkisstjórnarinnar? Nei, það getur ekki verið því að ríkisstjórnin hefur ekki hagsmuni af svona löguðu að mínu mati. Í þágu þingræðisins? Nei. Í þágu Alþingis? Nei. Þessi frammistaða er satt að segja með þvílíkum ólíkindum og innlegg hæstv. forsrh. áðan að það tekur engu tali. Til hvers er hann að ráðast á forseta Alþingis, hæstv. forseta Salome Þorkelsdóttur, vegna þess að það er hún sem ber ábyrgð á þinghaldinu? Til hvers er hann að því? Er verið að reyna að koma einhverjum skilaboðum á framfæri innan Sjálfstfl. sem ekki er hægt að segja á þingflokksfundum en betra að segja varinn í þessum stól? Eða hvað? Hvað er hér á ferðinni? Hvað er hér á ferðinni, virðulegi forseti? Hvað á þessi yfirgangur að þýða, ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, þessi frekja?
    Í umræðum í fyrrakvöld veittist hæstv. forsrh. mjög hart að þingmönnum, kallaði mál þeirra málæði, kallaði ræður þeirra langhunda, sagði að þær ræður hefðu ekkert upp á sig af því að þær breyttu engu. Það var orðrétt í ræðu forsrh. komist þannig að orði að því er varðaði umræður um Lánasjóð ísl. námsmanna að það þýddi ekkert fyrir okkur að vera að tala af því að það breytti engu sem við segðum. Það er býsna sárt að heyra þetta frá hæstv. forsrh., sérstaklega ef hann meinar það, en ég trúi því ekki að hann geri það.
    Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir kvartaði undan því hvað ræðumenn og einkum og sér í lagi stjórnarandstæðingar yfirleitt væru leiðinlegir, það væri svo þreytandi að sitja undir þessum ræðum að það væri óskaplegt og hv. þm. varði hálfri ræðu sinni í að bera sig upp undan því hvað þingmenn stjórnarandstöðunnar væru leiðinlegir. Hvað er hér á ferðinni? Hvað er hér á ferðinni, virðulegi forseti? (Gripið fram í.) Spurning er, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hvort það væri t.d. ekki athugandi að þú áttaðir þig á því, hv. þm., hvaða ábyrgð þú berð á þessum forsrh. og hrakyrðum hans um Alþingi Íslendinga. Ég kann ekki að meta orðbragð af því tagi sem hæstv. forsrh. temur sér þegar hann er að reyna að gera lítið úr fjarstöddum þingmönnum, eins og hv. 2. þm. Vestf., og ég kann ekki að meta svona vinnubrögð, ég segi það alveg eins og er. Jafnvel þó svo kunni að vera að menn hafi kunnað að meta þetta einhvers staðar annars staðar í þessari borg hefur málflutningur af þessu tagi aldrei verið talinn drengilegur á Alþingi Íslendinga.