Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Í framhaldi af umræðum um skýrslu Byggðastofnunar vil ég vekja athygli á að í lögum um Byggðastofnun er kveðið á um að forsrh. skuli leggja fram byggðaáætlun á Alþingi til umræðu og afgreiðslu. Þetta hefur ekki verið gert enn á þessu þingi og aðeins fáir dagar eru til þingloka. Aðdragandinn er sá að ég spurði hæstv. forsrh. um þessa skýrslu mig minnir í marsmánuði sl. og það var fyrst fáum dögum síðar sem stjórn Byggðastofnunar fékk beiðni um að vinna að slíkri skýrslu. Vegna þess hvað þá var skammur tími til þingloka treysti Byggðastofnun sér ekki til að gera það á svo skömmum tíma. Ég tel að það sé ákaflega slæmt að ríkisstjórnin skuli þannig gleyma byggðamálum, ekki síst miðað við hvernig ástandið er í þeim málum nú eftir eins árs setu þessarar ríkisstjórnar.