Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hvaða orð ætti að nota um hæstv. forsrh. og hans málflutning áðan? Ég veit það eiginlega ekki. Mér dettur í hug t.d. að hér hafi staðið holdi klætt rökþrotabú. Hvað segja menn um þá bókmenntalegu tilraun til samlíkingar? Ég satt að segja hef aldrei upplifað átakanlegri stund en þegar hæstv. forsrh. var að reyna að réttlæta árásir sínar á Alþingi Íslendinga því þá hjólaði hann í mig persónulega með líka þessum litla fyrirgangi. Óskaplega líður manninum illa í þessu starfi. Vill hann ekki fara að hætta þessu ,,djobbi`` sem hann er í? Það er greinilegt að það gengur svo undir skinnið á honum að hann veit ekki sitt rjúkandi ráð. Þetta er svo voðalega erfitt. Ég hef aldrei séð mann í eins átakanlegri stöðu stynja undan sínu eigin hlutverki. Til mikils var nú unnið á landsfundi Sjálfstfl. forðum þegar Þorsteinn var felldur að menn skuli bera sig svona illa eftir eins árs starf. Hvernig verður hann eftir tvö eða þrjú, fjögur eða fimm? Þvílíkt ástand! Sjálfstfl. og þingmenn hans eiga alla mína samúð, virðulegi forseti, að þurfa að búa við þetta kannski í eitt ár í viðbót, kannski tvö. Það kom fram í þessari athugasemd að vandamálin eru ekki nýju þingsköpin. Vandamálin eru ekki stjórnarandstaðan og vandamálin eru ekki stjórnarþingmennirnir. Vandamálin eru ekki forseti Alþingis. Vandamálið heitir Davíð Oddsson eins og ég hef áður nefnt hér. Það er það sem liggur alveg kristalstært fyrir. Hann staðfesti það sjálfur í þessari athyglisverðu ræðu, forsrh. íslenska lýðveldisins, hér áðan.
    Hann taldi að ég hefði ekki notað rétt orð um hann og hans málflutning. Það kann vel að vera að ég hafi ekki hitt naglann nákvæmlega á höfuðið. Mönnum tekst ekki alltaf að fá hvítt tyggjó þó þeir biðji um það hástöfum eins og kunnugt er, það er alveg ljóst. En hvaða orðbragð er það að kalla ræður þingmanna langhunda, að kalla ræður þingmanna málæði og að fara með lítilsvirðingarþulu um þingmenn eins og hann gerði áðan um hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson? Hvað á það að þýða? Hvaða vanda leysir það? Ég verð

að játa að eftir þessa ræðu hæstv. forsrh. íslenska lýðveldisins áðan hef ég meiri skilning en áður á vanda hæstv. forseta Alþingis.