Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mér er skapi næst að fara fram á það við hæstv. forseta að hugleiða hvort ekki sé í raun og veru óhjákvæmilegt vegna þeirra atburða sem orðið hafa á seinustu sólarhringum að Alþingi sjálft taki sér tíma til að ræða sjálft sig og eigin vinnubrögð og sambúð sína við hæstv. forsrh. Það verði skapað svigrúm fyrir slíkar umræður undir dagskrárliðum þannig að ekki þurfi að eiga orðastað um slíkt í þingskapaumræðum. Ég stóð fyrir því hér fyrr í vetur þegar mér ofbuðu ummæli hæstv. forsrh. um Alþingi að hér var umræða utan dagskrár um það mál. Því miður sýnist mér öll efni standa til að Alþingi verði aftur að fara í gegnum slíka umræðu. Þetta getur auðvitað ekki gengið svona. Hæstv. forsrh. virðist tala algerlega fram hjá þeirri staðreynd að það Alþingi sem senn er að ljúka störfum hefur um margt verið afbrigðilegt. Hér hafa verið mikil átakamál til umfjöllunar og hér hefur stjórn þingsins farið í upplausn af vissum ástæðum, þ.e. stjórnarnefndin, vegna þess valdboðs sem hin nýja forusta Sjálfstfl. ákvað að beita í sambandi við kjör forsætisnefndar.
    Það er að vísu ágæt skýring og velviljuð tilraun af hálfu hv. 6. þm. Norðurl. e. að afsaka frammistöðu og framkomu hæstv. forsrh. með reynsluleysi og sýnir að þar fer góðhjartaður maður sem reynir að finna hæstv. forsrh. þetta reynsluleysi til málsbóta. Og það er rétt að hæstv. forsrh. hefur aldrei starfað á Alþingi sem óbreyttur þingmaður. Hann hefur aldrei starfað í þingnefndum. Hann hefur aldrei kynnst störfum venjulegra þingmanna eins og þau ganga fyrir sig í öllum sínum fjölbreytileika. En þeim mun alvarlegri er sú staðreynd að engu að síður skuli hæstv. forsrh. telja sig þess umkominn að gerast hvort tveggja í senn siðameistari og háyfirdómari um störf Alþingis, málflutning alþingismanna og jafnvel innihald í ræðum þeirra. Og það finnst mér öllu alvarlegast, hæstv. forseti, að við skulum búa við forsrh. í lýðveldinu Íslandi nú um stundir sem alveg blákalt kemur í ræðustólinn og kveður upp úr um það að sumar ræður ætti ekki að halda, að aðrar ræður séu of langar, að málflutningur, skoðanir, sjónarmið þessa eða hins mannsins eigi ekki rétt á sér, séu bull og vitleysa, langhundar eða eitthvað af því taginu. Og minni lærisveinar hæstv. forsrh. kveða svo upp úr um það að aðrar ræður séu leiðinlegar.
    Þetta er sami hæstv. forsrh. og kom hér áðan og sakaði aðra hv. þm. um að hafa verið stuðningsmenn ritskoðunarþjóðfélags. En inn í hvaða hugarheim lýsa ummæli hæstv. forsrh. sjálfs, um það t.d. að hv. 2. þm. Vestf. ætti ekki að halda ræðu sína um byggðamál? Er það þannig að hæstv. forsrh. telji sig þess umkominn að ráða skoðunum hv. 2. þm. Vestf.? Það vill svo til að hv. 2. þm. Vestf. kemur frá Vestfjörðum þar sem ástand í byggðamálum er og hefur um árabil verið hvað alvarlegast á landinu og byggðaröskun mest. Það skiptir væntanlega hæstv. forsrh. og fyrrv. borgarstjóra í Reykjavík engu máli þó slíkar ástæður liggi til þess að hv. 2. þm. Vestf. vill fá að ljúka máli sínu um byggðamál á þessu þingi.
    Nei, hæstv. forseti, þetta er þannig staða að ég held að það sé óhjákvæmilegt að ég ítreki ósk mína til forseta um það --- ég bið ekki um svör hér heldur að það sé tekið til athugunar --- hvort ekki sé unnt að verða við því að Alþingi geti tekið umræðu um þær uppákomur sem orðið hafa þannig að menn geti þá skipst á skoðunum við hæstv. forsrh. og undirbúið ræður sínar í því sambandi en þurfi ekki að mæta honum þegar hann tekur sig til við að siða Alþingi eða segja því til syndanna eða gefa því einkunnir eða dóma ýmist í útvarpsumræðum eða í viðtölum við fjölmiðla úti í bæ.
    Mér finnast það, hæstv. forseti, ákaflega alvarlegir og dapurlegir hlutir sem hér hafa verið að gerast. Og ég vildi svo sannarlega að ég gæti með sama jákvæða hugarfarinu og 6. þm. Norðurl. e. afsakað þetta allt með reynsluleysi forsrh. En hann hefur þá a.m.k. ekki vitkast eða öðlast dýrmæta reynslu á þessum vetri því að hann heldur áfram uppteknum hætti. Eins og ég sagði í fyrrakvöld: Honum nægði ekki að koma gagnfræðaskólastimplinum á Alþingi Íslendinga sem hefur starfað í 1061 ár, en hæstv. forsrh. setið hér í nokkra mánuði.