Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í hádegisútvarpinu í dag að þingflokkar stjórnarandstöðunnar birtu auglýsingar og hvöttu fólk til að fylgjast með sjónvarpsútsendingum Sýnar úr þessum þingsal í dag. Forsrh. hefur leyft sér að hafa uppi nokkra gagnrýni á stjórnarandstöðuna fyrir málflutning í þinginu, m.a. fyrir misnotkun á umræðum um þingsköp. Þessi umræða um þingsköp hefur nú átt sér stað í dag í drjúga stund og þó hún hafi ekki miklu skilað efnislega hefur hún þó a.m.k. að mínum dómi sýnt því fólki sem hlýddi auglýsingum og fór eftir auglýsingum stjórnarandstöðunnar fram á hvað forsrh. var að fara og réttmætið í gagnrýni hans.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að þessum umræðum um þingsköp ljúki og að þingið snúi sér að því að ræða þau mál sem á dagskrá þess eru.