Lánasjóður íslenskra námsmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 19:04:00 (6442)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það dregur nú til tíðinda í þessu lánasjóðsmáli og stjórnarandstaðan hér á Alþingi hefur reynt að gera flest það sem hún hefur getað til að reyna að koma í veg fyrir að þau ógæfuverk, sem þessi ríkisstjórn er að vinna á lögunum um námslán og námsstyrki frá 1982, nái fram að ganga. Það er sýnt að stjórnarandstaðan hefur reyndar náð talsverðum árangri í að snúa ríkisstjórninni frá villu síns vegar. Hins vegar er það alveg ljóst að það er verið að gera grundvallarbreytingar á lögunum um námslán og námsstyrki frá 1982 og þar af leiðandi um leið grundvallarbreytingar á því mikilvæga hlutverki sem Lánasjóður ísl. námsmanna hefur gegnt gagnvart námsmönnum og ekki bara gagnvart námsmönnum heldur einnig gagnvart fjölskyldum námsmanna og aðstandendum þeirra. Málið snertir ekki aðeins sárafáa námsmenn heldur allan þann fjölda sem í kringum þá er.
    Þetta eru því dökkir dagar, á þessum vordögum, sem ganga í garð hjá námsmönnum og fjölskyldum þeirra. Það sem hér er að gerast er að það er verið að færa til annars vegar það hlutverk sem lánasjóðurinn hefur haft, það er verið að velta þeim vanda sem steðjar að þjóðinni um þessar mundir yfir á framtíðina. Það er gert með því í fyrsta lagi að jafnrétti til náms er aflagt. Í öðru lagi: Það er hætt að taka tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur. Og í þriðja lagi: Það er verið að leggja vexti á námslánin. Í fjórða lagi er reyndar staðið við það ákvæði sem verið hefur í lögunum um námslán og námsstyrki, þ.e. að endurgreiðsla lánanna sé tekjutengd, en það er verið að herða tekjutenginguna svo gríðarlega að þetta mun þýða það í framtíðinni að þegar þeir sem munu taka þá aðstoð sem lánasjóðurinn í breyttri mynd mun veita, þegar sá hópur fer að greiða af sínum lánum mun það þýða auknar kjarakröfur hjá þeim hópi af þeirri ástæðu að greiðslubyrði lánanna verður óbærileg. Þeir sem núna tala hæst um fortíðarvanda fyrri ríkisstjórna eru í raun og veru að búa til fortíðarvanda með því að velta þeim vandamálum sem lánasjóðurinn býr við í dag yfir á framtíðina. Í fimmta lagi átti að stefna að því, sem var megintilgangurinn með þessum lögum, að endurheimtuhlutfall lánanna yrði sem allra hæst. Það átti að gera með hörðum endurgreiðslureglum eða hertari endurgreiðslureglum og vöxtum á námslán til þess að koma í veg

fyrir það að þeir sem fram undir þetta og geta eftir þetta tekið lán og þegar þeir eru komnir upp fyrir ákveðna upphæð í láni og vita að þeir verða tekjulágir að afloknu námi séu sjálfkrafa og án nokkurra ákvarðana nema eigin ákvarðana að taka sér námsstyrki. Þetta er mjög alvarlegt. Það er þessi hópur sem námsmenn vilja ná til. Það er þessi hópur sem stjórnarandstaðan hefur boðist til að eiga samstarf og samvinnu við stjórnarliðið hér á Alþingi um að ná til í samvinnu við námsmenn. En það er þetta sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki þegið. Niðurstaðan er sú að þeir námsmenn sem í dag hafa greitt lánin sín að fullu munu greiða meira eftir breytinguna. Þeir námsmenn sem hafa tekið sér sjálfkrafa námsstyrki í dag munu halda áfram að taka þessa námsstyrki sjálfkrafa og án nokkurra ákvarðana þar um nema eigin ákvarðana. Það grundvallaratriði sem átti að breyta með þessum lögum mun ekki nást fram.
    Nú sé ég að hæstv. menntmrh. er genginn í salinn og ég fagna því. Hann á hrós skilið fyrir það hversu vel hann hefur setið yfir þessari umræðu. En síðar í ræðu minni, sem ég ætla ekki að hafa neitt óskaplega langa að þessu sinni, langar mig aðeins til að eiga orðastað við hann út af nokkrum atriðum sem mér finnst vera vert að athuga nú við þessa umræðu.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið, þ.e. Alþfl. og Sjálfstfl. hafa ákveðið að gera þessar grundvallarbreytingar á lánasjóðnum. Stjórnarandstaðan kemur ekki í veg fyrir það, það er alveg ljóst. En það er eitt atriði í þessu lagafrv. sem hefur ekkert með þessi grundvallaratriði að gera. Það eru þessar margumræddu eftirágreiðslur og öll umræðan við 2. og 3. umr. snýst um.
    Því miður er sú breyting algjörlega vanhugsuð og í raun og veru ekkert annað en hreinn fantaskapur gagnvart námsmönnum. Ég hef áður sagt að það sé aðför að námsmönnum, sem það er, og það er auðvitað um leið ekkert annað en hreinn fantaskapur við þennan hóp. Og ég skil ekki hvernig mönnum kemur til hugar að ætla að framkvæma þetta. Það sem mér fannst vera merkilegast á fundi í menntmn. í gær, sem ég sat í forföllum annars þingmanns, var að þá kom það fram að þetta mál snýst ekki lengur orðið um peninga. Þetta snýst orðið um að ætla að aga námsmenn með þessu fyrirkomulagi. Það finnst mér vera mjög einkennilegt ef Lánasjóður ísl. námsmanna á að fara að hafa það hlutverk að aga námsmenn og ég skil það ekki öðruvísi en að menntmrh. sé þá uppgefinn við það að innan skólanna sé haldið uppi aga. Og þegar ég segi: þetta mál snýst ekki um peninga, þá á ég við það að lánaði nú lánasjóðurinn út samkvæmt núgildandi reglum á hausti mundi það þýða 1 milljarð 270 millj. kr. Sjóðurinn hefur hins vegar til ráðstöfunar 800 millj. kr. samkvæmt fjárlögum. Stjórnarandstaðan gerir ekki tilkall til þess að ríkisframlagið verði aukið um 470 millj. eða um þennan mun. Stjórnarandstaðan gerir heldur ekki kröfu til þess að það verði farið út í auknar lántökur. Stjórnarandstaðan gerir einvörðungu kröfu til þess að þeir fjármunir sem lánasjóðurinn hefur til ráðstöfunar verði notaðir handa námsmönnum í haust þannig að menn geti bærilega lifað haustið af.
    Ef þetta yrði nú gert með skynsamlegum hætti ætti að framkvæma þetta þannig að þær 800 millj. sem sjóðurinn hefur eru u.þ.b. 2 / 3 hlutar þess sem úthlutun yrði að óbreyttum reglum. Inn í 6. gr. eða inn sem ákvæði til bráðabirgða ætti auðvitað að setja í þessi lög að 2 / 3 hlutar þeirra útgreiðslna, sem yrðu að óbreyttum reglum, yrðu greiddir út í haust. Það yrði með öðrum orðum í kringum 800 millj. kr. Það þýddi að námsmenn fengju 2 / 3 hluta af sinni framfærslu og þyrftu þar af leiðandi ekki að fjármagna nema 1 / 3 hluta þessa sem þýðir að vaxtabyrðin yrði minni.
    Það hafa verið miklar tröllasögur í gangi um að 55 millj. kr. skili sér ekki af því sem sjóðurinn lánar út eða námsmenn taki sér þær með því að gefa vísvitandi, eins og haldið er fram, upp rangar tekjutölur. Ef stjórnarliðið væri tilbúið að ljá máls á þessum breytingum væri ekkert eðlilegra en að hækka þá refsingu, sem núna er í framkvæmd í raun, úr 5% upp í 10% gagnvart þeim aðilum sem, eins og stjórnarmeirihlutinn heldur fram, eru vísvitandi að gefa upp rangar upplýsingar. Þá er hægt að koma í veg fyrir þetta. 55 millj. eru þetta hins vegar ekki. Þegar upp er staðið og dæmið er gert upp í heild sinni eru þetta ekki nema 8 millj. 55 millj. eru ekkert annað en tröllasögur. Eins og tröllasögurnar um hvernig námslánunum er ráðstafað til bílakaupa, til kaupa á hljómflutningstækjum og ýmiss konar fjárfestingu. Menn verða að passa sig svolítið á því í þessari umræðu að koma ekki þannig fram að almenningur fari að halda að þarna sé um óskaplegt bruðl að ræða sem það alls ekki er. Allir þeir námsmenn sem ég þekki nýta þessa fjármuni afskaplega vel og lifa spart, enda framfærslan rétt svo að hún dugar fyrir lifibrauðinu. En eins og ég sagði áðan fannst mér það koma skýrt fram á fundi menntmn. í gær að þetta mál snýst ekki um peninga. Það snýst, því miður að mínu viti, orðið um hreinan fautaskap gagnvart námsmönnum.
    Ég ætla ekki að fara að vitna í sömu blaðagreinar og fyrri ræðumenn eru búnir að vitna í hér í dag, en bendi hæstv. menntmrh. á að lesa grein eftir Elsu B. Valsdóttur, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, sem ég þykist vera viss um að ráðherrann hefur lesið. Og þegar ég segist vera viss um að hann hafi lesið hana er það vegna þess að þetta er sú manneskja sem hæstv. menntmrh. treysti best af öllum námsmönnum. Hann tók þessa stúlku út úr þessum fjölmenna hópi námsmanna og ákvað að setja hana sem sérstakan fulltrúa námsmanna, án þess að leita eftir tilnefningu, í þá nefnd sem átti að hafa það hlutverk og hafði það hlutverk að endurskoða þessi lög. Þetta segir mér að ráðherrann hæstv. hefur borið fullt traust til þessarar manneskju. Ég þekki hana nú ekki neitt, en af lestri greinarinnar ber ég mikið traust til hennar og ég held að hæstv. ráðherra ætti að treysta orðum hennar í þessari grein og líta gaumgæfilega á greinina og velta því fyrir sér hvað það er í raun og veru sem menn eru þarna að gera.
    Ég veit að það var vitnað fyrr í dag í Víkverja í Morgunblaðinu í gær. Til þess að tefja ekki tímann og vera ekki með langhunda, eins og hæstv. forsrh. talar um að þingmenn séu með, ætla ég ekki heldur að vitna í Víkverja vegna þess að ég þykist vera viss um það að hæstv. menntmrh. les Morgunblaðið og hefur lesið þetta líka. Ég býst við að þessi Víkverjagrein sé skrifuð af fréttastjórum eða ritstjórum Morgunblaðsins þannig að þarna er Morgunblaðið að gefa Sjálfstfl. línu með það hvernig menn eiga að koma fram í þessu máli. Víkverji varar mjög alvarlega við þeim hugmyndum sem þarna eru uppi.
    Ég ætla að taka eitt dæmi, sem er raunhæft dæmi, og sýna hæstv. menntmrh. fram á hversu vitlaust þetta er í raun og veru. Námsmaður sem telur sig eiga rétt á 600 þús. kr. láni úr Lánasjóði ísl. námsmanna og telur sig þurfa að taka þá upphæð vegna þess að hann þarf hana til þess að lifa af fer inn í Landsbankann og við skulum segja að það sé umsamið að hann fái þetta lán í Landsbankanum með öllum þeim ábyrðgum sem Landsbankinn mun gera kröfur um. Í vexti á lánstímanum má búast við að þessi námsmaður þurfi að greiða 60 þús. kr. Hann býst við láni úr lánasjóðnum upp á 600 þús. kr. En hæstv. menntmrh. hefur sagt að það muni verða lánað fyrir vöxtunum þannig að þegar upp er staðið mun lánasjóðurinn lána út til þessa námsmanns 660 þús. kr. Hefði námsmaðurinn ekki þurft að fara í bankann, fengi bara lánið samkvæmt framfærslunni, hefði lánasjóðurinn ekki þurft að lána nema 600 þúsund, en mun, af því að hann vísar námsmanninum á Landsbankann eða einhvern annan banka, hvaða banka sem það er, lána út 660 þús. kr.
    Rökin fyrir þessu eru þau að námsmaðurinn muni þurfa að greiða þessar 60 þús. kr. til baka, lánasjóðurinn muni fá það, en með 1% vöxtum. Hins vegar er öruggt að lánasjóðurinn þarf að taka lán fyrir þeim 60 þús. kr. sem hann lánar viðkomandi námsmanni. Hann mun taka þetta lán sennilega með 8% vöxtum. Vextirnir sem námsmaðurinn greiðir af 60 þúsundunum inn í lánasjóðinn eru 600 kr. En vextirnir sem lánasjóðurinn greiðir fyrir lánið sem hann tekur til þess að lána námsmanninum eru 4.800 kr. Með öðrum orðum: Vaxtamismunurinn, útgjaldaaukinn fyrir þennan eina námsmann hjá lánasjóðnum er 4.200 kr.
    Segjum nú að námsmennirnir séu 8.000. Þetta þýðir viðbótarútgjöld fyrir lánasjóðinn upp á 33,6 millj. kr. á einu ári. Með öðrum orðum: Leiðin sem menn eru að fara og hafa hér ákveðið að fara eykur útgjöld lánasjóðsins. Ég get ekki með nokkru móti séð hvernig þetta kemur heim og saman við það sem ég hélt að hefði verið tilgangurinn með þessum lagabreytingum, þ.e. að draga úr útgjöldum sjóðsins.
    Þetta dæmi bið ég hæstv. menntmrh. að íhuga og þá um leið: Til þess að við séum ekki að gera kröfur um að fara umfram fjárlögin eða taka lán til að geta staðið við útgreiðslurnar í haust, hvort ekki sé nú skynsamlegt að greiða út þessar 800 millj. kr. í haust. Sú upphæð sem þarna er um að ræða mun örugglega lækka, útgjaldaauki lánasjóðsins mun örugglega lækka ef sú yrði niðurstaðan að menn féllu nú frá þessu ótrúlega vitlausa ákvæði sem þarna er um að ræða sem þegar upp er staðið þýðir ekkert annað fyrir lánasjóðinn en aukin útgjöld.
    Niðurstaðan er því þessi: Verði 6. gr. ákvæðið inni, verði staðið við, sem ég veit að verður staðið við, ég hef engar ástæður til þess að rengja það, verði staðið við það ákvæði að það verði lánað fyrir vöxtunum munu útgjöldin aukast. Foreldrarnir þurfa að skrifa upp á ábyrgðir. Séu menn í námi erlendis þurfa foreldrarnir að standa í biðröðum í bankakerfinu eftir því að slá lán fyrir börnin sín, umboðsmennirnir þurfa að gera það fyrir skjólstæðinga sína. Þetta þýðir tapaðar vinnustundir, aukin útgjöld fyrir þjóðfélagið í heild. Þetta mun með öðrum orðum valda þeim sem þurfa á aðstoðinni að halda miklum erfiðleikum. Það mun angra þá sem í þessu þurfa að standa. Útgjöldin munu aukast og af þessu mun ekkert annað hljótast en bölvað vesen. Og af hverju standa menn í þessu þegar þetta skiptir engu máli í útgjöldum lánasjóðsins að öðru leyti en því að þau munu aukast þegar dæmið verður gert upp í heild sinni?
    Hæstv. menntmrh. hefur svarað mjög mörgum af þeim spurningum sem fram hafa komið við þessa umræðu og ég þakka sérstaklega fyrir það. Og svörin hafa verið skýr og skilmerkileg. En auðvitað er maður ekki sáttur við þau öll. Það er verið að fara inn á aðra braut. Og eins og ég sagði hér í upphafi: stjórnarandstaðan ræður einfaldlega ekki við það mál og það er ákvörðun stjórnarflokkanna að fara þessa leið. Ég vil hins vegar spyrja menntmrh.: Er það hans óbreytta afstaða í ljósi þess sem nú hefur verið að gerast, þess sem hefur verið sagt, þess sem hefur verið skrifað og alls þess sem ráðherranum hefur verið bent á, hversu vitlaust þetta fyrirkomulag sé, að halda þessu til streitu?
    Í öðru lagi: Hefur verið ákveðið, og nú veit ég auðvitað að það er ekki ákvörðunaratriði ráðherra, en hann getur með sínum orðum og athöfnum haft mikil áhrif þar á, hvert tekjutillitið á að vera, hver tekjutillitsbreytingin á að verða í úthlutunarreglunum fyrir vorlánin eða haustlánin?
    Í þriðja lagi: Ráðherra hefur lýst því yfir, og væri ágætt að hann gerði það úr þessum ræðustól aftur, að framfærslugrunninum verði ekki breytt. Hann lýsti þessu yfir á fundi menntmn. í gær og ég veit að hann stendur við orð sín aftur. Framfærslugrunninum á ekki að breyta. En ég spyr: Mun hæstv. menntmrh. leggja áherslu á að framfærslustuðlunum verði breytt? Mun hann gefa stjórn lánasjóðsins einhver fyrirmæli um slíkt, að framfærslustuðlunum verði breytt? Framfærslugrunnurinn er bara einn hluti af öllum framfærslustuðlunum.
    Í fjórða lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann það vera hlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna að aga námsmenn til með því fyrirkomulagi sem hann hefur lýst yfir að hann vilji koma á? Telur hann það vera hlutverk lánasjóðsins?
    Nú er öldin önnur, því miður. Sjálfstfl. hefur ítrekað reynt síðan 1983 að koma á grundvallarbreytingum á því fyrirkomulagi sem við framsóknarmenn komum á sínum tíma á, þ.e. lögunum um námslán og námsstyrki frá því í maí 1982. Friðrik Sophusson, núv. hæstv. fjmrh., skrifaði undir það nál. á sínum tíma af hræðslu. Hann stóð einn. Það væri gaman að hafa tíma til þess að fara í gegnum allar fundargerðirnar frá því að lögin um námslán og námsstyrki voru samin á sínum tíma og fara aðeins yfir afstöðu hæstv. fjmrh. núv., Friðriks Sophussonar, til lánasjóðsins. Hún birtist mjög greinilega í fundargerðum frá þessum tíma. Ég á þær fundargerðir allar til vegna þess að það vildi svo til að ég var formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands á þeim tíma. Auðvitað var það ekkert annað en óttinn, það var hræðslan við námsmennina sem knúði þennan mann þá til að skrifa undir fyrir hönd Sjálfstfl. En um leið og sá flokkur fékk aftur tækifæri til þess að ráðskast með þennan málaflokk var byrjað með sömu látunum, sömu aðförunum við það að fá þessum lögum breytt og breyta grundvallaratriðunum. Framsóknarmenn stóðu á móti því alla tíð og hafa gert, komu í veg fyrir það, og hafa verið ýmiss konar átök á milli flokkanna á þeim tíma þegar þeir voru í ríkisstjórn um þá hluti, en það tókst og sýnir mismuninn á þeim tveimur flokkum, annars vegar Framsfl., sem kom í veg fyrir þetta, og Alþfl. sem er metnaðarlaus fyrir hönd sinna umbjóðenda, lætur sig engu skipta þó að ungliðasamtökin í flokknum vari mjög eindregið við þessu. Lætur sig engu skipta, nú þegar hann kemur hér til þings, að áður hafa allir þingmenn flokksins samþykkt að það skuli breyta 6. gr. ákvæðinu. Nei, nei. Þegar Sjálfstfl. segir þeim: Þið skuluð haga ykkur svona, þá einfaldlega er það gert.
    Það er grátlegt til þess að vita um formann þingflokks Alþfl., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það skuli alltaf í hvert einasta skipti sem þetta mál, um Lánasjóð ísl. námsmanna, er tekið fyrir á fundi í hv. Alþingi sjást undir hælana á þeim manni út úr dyrum þingsins. Hann þolir ekki að sitja undir þessari umræðu af þeirri ástæðu að hann veit upp á sig skömmina. Hann gekk harðast fram í því á sínum tíma sem formaður stúdentaráðs að koma í veg fyrir allar þær breytingar sem þá stóð til að gera á Lánasjóði ísl. námsmanna. Það tókst ekki. Hins vegar ætlar sá maður nú að reyna með því að sitja hjá þegar greitt er atkvæði um 6. gr. að fría sig þeirri ábyrgð sem Alþfl. ber á þeim óhæfuverkum sem hér er verið að framkvæma. Með hjásetu ætlar þessi hv. þm. að reyna að fría sig ábyrgð og telja námsmönnum trú um að hann hafi reynt að gera allt sem hann gat til þess að koma í veg fyrir að þetta færi inn í lögin. En allir hæstv. ráðherrar Alþfl., allir hv. þm. höfðu samþykkt það á flokksráðsfundi flokksins að þetta ákvæði skyldi fara út. Um leið og þeir koma hérna inn í þingið segja þeir nei. Og það er sorglegt til þess að vita að það skuli vera þeir menn sem nú fjalla um og sýsla með Lánasjóð ísl. námsmanna sem hafa í gegnum tíðina fengið húsnæðislánin sín fyrir ekki neitt, hafa fengið námslánin sín fyrir ekki neitt. Það eru þeir menn m.a. sem eru í þeim hópi 205 fjölskyldna sem eiga þessar 85 millj. kr. í nettóeign. Og það er þessi hópur sem er núna að beita sér fyrir breytingum á þessu hjálpartæki námsmanna meðan á námi stendur og vita ekkert hvaða afleiðingar það hefur í för með sér.
    Virðulegi forseti. Ég læt mér það litlu skipta þó hæstv. forsrh. komi í eldhúsdagsumræðum og í þingskapaumræðum í dag og tali um að við hv. þm. flytjum sífellt sömu ræðuna. Ég mótmæli því einfaldlega. Ég er enn að koma með nýtt dæmi og benda mönnum á hvort ekki sé rétt að staldra við og íhuga hvað það er og hvað það þýðir í raun og veru sem hérna er verið að gera. En ég læt mér það í léttu rúmi liggja þó hæstv. forsrh. ásaki mann um slíkt því að ég ætla við þessa umræðu að reyna, og við ætlum það stjórnarandstæðingar, að reyna að gera úrslitatilraun til að fá ríkisstjórnina til að skilja að það sem þeir eru að gera er rangt og það hefur útgjaldaauka í för með sér og það er ekki hægt að ganga fram gagnvart námsmönnum né nokkrum öðrum hópi í þessu þjóðfélagi með þeim fantaskap og með þeim fautaskap sem hér á að verða.