Lánasjóður íslenskra námsmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 20:00:50 (6444)


     Frsm. minni hluta menntmn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra fór yfir málið með tilliti til fyrirspurna sem ég og fleiri lögðum fyrir hann og það eru eitt eða tvö atriði sem ég vildi aðeins nefna úr hans máli. Það er varðandi þetta fyrsta atriði um aðgang að fjármagni á þessu ári sem hann gerði að umtalsefni og vildi halda fram að það væri einhver rangur skilningur á ferðinni í sambandi við umræddar 800 millj. eða eitthvað nálægt þeirri upphæð. Ég hygg að það sé ekki rétt hjá hæstv. ráðherra, þetta sé einhver rangur skilningur þar. Mér fannst ráðherrann staðfesta það mjög skýrt í sínu máli að þessi fjárupphæð, sem ekki yrði ráðstafað af sjóðnum á þessu ári, flyttist yfir á næsta ár. Það er ekki verið að nýta þær heimildir til fjárveitinga sem eru í gildandi fjárlögum og lánsfjárlögum þannig að það er alveg ljóst hvað hér er á ferðinni. Ríkisstjórnin er að spara sér það á þessu ári að nýta þessa peninga til útlána. Hún færir þetta yfir á næsta ár og hún mun þannig auðvitað, fyrir utan það sem óbeint sparast vegna hertra reglna varðandi sjóðinn á marga lund, spara sér verulegar upphæðir og auðvitað heldur þetta síðan áfram vegna þess að eftirágreiðslurnar eiga að gilda sem meginregla.
    Hæstv. ráðherra nefndi líka varðandi vaxtamálin, vaxtakostnaðinn eða gerði því skóna að hækkunin á lánsfjárþörf sjóðsins eða fjárþörf sjóðsins vegna yfirtöku á vöxtum muni nema á bilinu 35--70 millj. kr. og leiðir það af líkum út frá viðskiptum fyrsta árs nema. Nú vil ég ekkert vera að rengja forsendur ráðherrans fyrir þessu, en ég tel það mjög óvarlegt, virðulegur forseti, af ráðherranum að leggja málið svona fyrir. Ég tel að það sé mjög óréttmætt. Og síðan varðandi sérálit Elsu B. Valsdóttur, sem ráðherrann vitnaði til, þá held ég nú að ráðherrann hefði átt að taka álitið svolítið heildstætt þegar hann er að leita sér þar fanga.