Lánasjóður íslenskra námsmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 20:05:12 (6446)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Já, ég las ekki allt nál., það er alveg rétt. Morgunblaðsgreinin hennar Elsu hefur heldur ekki öll verið lesin hér í þinginu. (Gripið fram í.) Nú, kannski öll. Þetta er í kafla sérálitsins sem heitir ,,Leiðir til úrbóta``. Ég minntist ekkert á vextina, það er alveg rétt. Mér er alveg ljóst að þessi fulltrúi mótmælti vöxtum. Ég man satt að segja ekki eftir neinum stúdent sem hefur mælt með þeim, ég man ekkert eftir því. En ég var eingöngu að telja upp þau fimm atriði sem Elsa B. Valsdóttir taldi koma til greina sem leiðir til úrbóta og leiðir sem lækka mundu fjárþörfina og ég tel það henni til tekna að hafa tekið með svo raunsæjum hætti á þessu máli.