Lánasjóður íslenskra námsmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 20:07:20 (6448)


     Frsm. minni hluta menntmn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ítreka mótmæli við því hvernig vitnað er til þingskjala og það einmitt til frv. sem hæstv. ráðherra leggur hér fyrir. Hér var vitnað til umræddrar greinar sem birtist í Morgunblaðinu í gær og þar kom fram álit þessa fulltrúa mjög skýrt á núverandi stöðu málsins. Menn hefðu nú kannski viljað taka eitthvað á sig ef við losnuðum við vexti og eftirágreiðslur út úr þessu frv. Menn mundu nú kannski vera til umræðu um það að eitthvað hefði mátt taka, enda hefur minni hlutinn tekið inn brtt. í frv., gert tillögur námsmanna að sínum í sambandi við 8. gr. og hertar greiðslur í sjóðinn til þess að bæta úr þeirri þörf sem þar er um að ræða.
    En ég vil bæta við, virðulegur forseti, einu atriði og spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort hann hafi orðið var við þrýsting og óskir af hálfu stjórnarþingmanna í dag eða síðustu daga um það að fá fram breytingar á frv. Ástæðan fyrir spurningu minni er sú og ég las síðdegis í DV viðtal við einn af stuðningsmönnum stjórnarliðsins, 7. þm. Norðurl. e., sem hafði þau ummæli uppi að það væri verið að knýja á um breytingar á frv. af hálfu þingmanna Alþfl. og það væri engan veginn útséð um nema slíkt gæti náðst fram. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvernig við hafi verið brugðist af hans hálfu þeim óskum sem nú hafa komið opinberlega fram með þessum hætti af hálfu þingmanns Alþfl. og það skilst mér af hálfu fleiri en eins.