Lánasjóður íslenskra námsmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 20:09:20 (6449)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ósköp er það eitthvað viðkvæmt þegar verið er að vitna í þessa ágætu ungu konu, Elsu B. Valsdóttur. Það er eins og það megi ekki vitna í nema vissa hluti sem frá henni hafa komið. Það var vitnað í þessa Morgunblaðsgrein hennar í dag, en ef ég vitna í það sem hún hefur sagt áður og er með töluvert öðrum hætti en það sem segir í greininni rís hér upp hver stjórnarandstæðingurinn upp á fætur öðrum og gerir athugasemdir við að ég skuli leyfa mér að vitna í þetta. Nóg um það.
    Ég hef ekki orðið var við neinn sérstakan þrýsting frá stjórnarþingmönnum í dag um að breyta frv. Ég hef lesið DV. Ég las líka DV í gær. Það mætti kannski nefna það. Þar var viðtal við annan hv. þm.

Alþfl. Af hverju vitna menn ekkert í það viðtal? Er það af því að það er í dálítið öðrum dúr? ( HG: Hvað kom fram þar?) Hvað kom fram þar? Á ég að trúa því að hv. þm. hafi ekki lesið það viðtal í gær við hv. þm. Karl Steinar? Er það svo að menn velji bara úr það sem menn sjá að passar og komi með þau mál upp í ræðustól?