Atvinnuleysistryggingasjóður

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 20:31:00 (6454)

     Frsm. heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson ):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 34/1988, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Frv. er flutt af heilbr.- og trn.
    Hinn 16. jan. sl. var gert samkomulag milli Verkamannasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands um að í tengslum við kjarasamninga yrði frá því gengið við stjórnvöld að breyta lögum nr. 34/1988, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Breytingin sem samið var um að beita sér fyrir felst í því að lengja þann hámarkstíma á hverju almanaksári sem fyrirtæki í fiskvinnslu eiga rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þess að starfsmönnum er haldið á launaskrá þrátt fyrir tímabundna framleiðslustöðvun vegna hráefnisskorts. Lengingin yrði úr sex vikum (30 greiðsludögum) í níu vikur (45 greiðsludaga).
    Þar sem frv. er flutt af heilbr.- og trn. tel ég óþarft að því sé vísað til nefndarinnar og geri tillögu um að vísa málinu til 2. umr. Það er afar brýnt að málið fáist afgreitt á vorþingi eins og gert er ráð fyrir í því samkomulagi sem ég gat um áðan.