Landkynningarefni

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 10:30:00 (6456)

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 806 hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. fjmrh. um landkynningarefni. Fsp. er í tveimur tölusettum liðum sem hljóða svo:
  ,,1. Leiðir álagning virðisaukaskatts til þess að prentun á landkynningarefni til dreifingar erlendis flyst úr landi?
    2. Ef svo er, hefur ráðherra í huga að grípa til ráðstafana sem leitt gætu til þess að prentunin yrði aftur unnin hér á landi?``
    Ástæða þessarar fsp. er sú að á vegum fjölmargra aðila sem stunda ferðamannaþjónustu er reynt að gefa út landkynningarefni, bæði auglýsingar, bæklinga dýra og kostnaðarsama og jafnvel bækur eða útgáfu sem getur flokkast undir það að vera landkynningarbækur. Ef þær eru prentaðar hér heima lenda þær eðlilega í því að á þá þjónustu er lagður virðisaukaskattur. Ef þetta efni er eingöngu ætlað útlendingum, sem mikið af því er vissulega og notað til dreifingar erlendis, kannski lítið hér heima eða jafnvel ekki neitt, þá er hægt að fá þennan útgáfukostnað verulega niður með því að láta prenta þetta efni allt saman erlendis. Það þýðir að við erum að flytja verulega prentun og þar með atvinnu úr landinu af þessari ástæðu einni saman.
    Ég hef fengið athugasemd frá ýmsum aðilum sem sinna ferðamannaþjónustu þar sem þetta hefur komið í ljós, t.d. frá Ferðamálaráði, sem ég veit að hefur látið prenta verulegan hluta af sínu kynningarefni erlendis til þess að sleppa við virðisaukaskattinn sérstaklega, og einnig frá Félagi sérleyfishafa þó þeir séu kannski ekki mjög stórir í sambandi við þetta landkynningarefni og útgáfustarfsemi en þá munar um allt. Þeir hafa einnig rekið sig á þennan þáttinn að þeir þurfa að láta prenta landkynningarefni erlendis.
    Ég hef undir höndum einnig bréf frá Ferðamálaráði til hæstv. þáv. fjmrh. frá því í nóvember 1990 þar sem kemur í ljós að íslenskar bækur sem eru landkynningarefni, landkynningarbækur, lenda einnig í því að þó að niður sé felldur virðisaukaskattur af íslenskum bókum er það ekki svo í þessu tilviki af því að þær bækur eru prentaðar með erlendum texta, á erlendum málum. Þetta virðist því víða koma fram og reka sig á.
    Virðulegur forseti. Tími minn er alveg að renna út sé ég, en þetta er sem sagt efni fsp. og þó hér sé kannski ekki um stórt mál að ræða, þá hygg ég að við þurfum að huga að okkur á öllum sviðum og leita allra leiða til þess að þjónusta af þessu tagi sé unnin heima á landi hjá okkur.