Landkynningarefni

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 10:33:37 (6457)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Spurt er: ,,Leiðir álagning virðisaukaskatts til þess að prentun á landkynningarefni til dreifingar erlendis flyst úr landi?`` Svar mitt í stuttu máli er þetta: Þær reglur gilda um prentun á landkynningarefni sem síðan er sent úr landi að við afhendingu frá prentsmiðju skal greiða virðisaukaskatt. Þeir aðilar sem láta prenta fyrir sig slíkt efni eru sjálfsagt nánast alltaf aðilar sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 2. gr. virðisaukaskattslaganna, nefnilega ferðaskrifstofur og hótel og einnig sérleyfishafar sem stunda fólksflutninga. Um þessa aðila gilda þær reglur að þeir innheimta ekki virðisaukaskatt af sölu á sinni þjónustu, en þeir fá heldur ekki frádrátt vegna virðisaukaskattsins sem þeir greiða af aðföngum vegna rekstursins, t.d. prentvarningi. Auk þess má benda á að þegar þessir aðilar senda kynningarbæklinga úr landi, þá er það ekki sala úr landi og þar með ekki útflutningur samkvæmt virðisaukaskattslögunum. Það þarf sem sagt að koma verð fyrir ef um útflutning er að ræða.
    Þá er spurt í framhaldi af þessu: ,,Ef svo er, hefur ráðherra í huga að grípa til ráðstafana sem leitt gætu til þess að prentun yrði aftur unnin hér á landi?`` Hvað varðar það að þessir aðilar sjái sér vegna þessara reglna hag í því að láta prenta slíka bæklinga erlendis því þeir sleppi þá við að greiða virðisaukaskatt er það að segja að slíkt fer alfarið eftir hvaða virðisaukaskattsreglur gilda í hverju einstöku landi. Miðað við það sem ég þekki til virðisaukaskattslaga annars staðar, t.d. í Danmörku, þá get ég ekki séð að það að láta

prenta kynningarbæklinga erlendis væri til hagsbóta fyrir þessa aðila nema að því leytinu til sem virðisaukaskatturinn er lægri þar en hér. Ástæðan er sú að ef aðili léti prenta bæklinga fyrir sig í Danmörku sem síðan ætti að dreifa þar í landi, þá væri honum gert að greiða virðisaukaskatt þar en innskattsfrádrátturinn fengist að sjálfsögðu ekki. Ef aðilinn léti aftur á móti prenta fyrir sig bækling í Danmörku sem síðan ætti að senda til Þýskalands, þá ætti sú sending að lenda í skatti í þýska tollinum. Það er meginreglan. Þriðja dæmið gæti síðan verið að íslenskur aðili léti prenta fyrir sig í Danmörku og síðan senda til Íslands. Slík sending mundi lenda í skatti við komu til landsins eins og frægt er og mörgum er nú heldur illa við.
    Í stuttu máli fæ ég ekki séð svona fljótt á litið að íslenskur aðili gæti haft hag af því að láta prenta kynningarbæklinga fyrir sig erlendis vegna skattreglnanna. Þó er það hugsanlegt ef slík prentun er einhvers staðar undanþegin skattskyldri veltu. Ég hef ekkert hér minnst á framleiðsluverð og gæði sem auðvitað hefur áhrif, en ég efast ekki um að íslenskir aðilar eru samkeppnisfærir a.m.k í gæðum og ég hélt satt að segja einnig í verði.
    Það var aðeins minnst á íslenskar bækur í þessu sambandi, þá landkynningarbækur. Hv. fyrirspyrjandi gerði það í sinni fsp. Það er rétt að sé textinn erlendur telst bókin ekki íslensk í skilningi laganna. Þetta mál er reyndar til skoðunar, en við höfum því miður átakanleg tilvik, t.d. eitt sem snertir einn ágætan bókarhöfund, ljósmyndara. Ég skal nafngreina hann. Einn af okkar ágætustu ljósmyndurum er Björn Rúriksson sem hefur gefið út bækur. Það hafa fleiri gert reyndar. Bókin er á íslensku. Þetta er aðallega myndabók með íslenskum texta og ber ekki skatt. Ef hún er með erlendum texta ber hún skatt. Svo sjá erlendir ferðamenn þessar bækur fyrir sér í bókabúðum hér á landi, sjá að Íslendingar fá bókina 20% ódýrari en útlendingar og telja þetta vera mismunun á því og gert upp á milli þess hvort menn eru útlenskir eða innlendir við kaup á slíkum bókum. Þetta er vandamál sem er fyrst og fremst til komið vegna þess að íslenskar bækur eru undanþegnar skattinum en ekki vegna þess að þær erlendu bera skatt og leiðir okkur aftur á byrjunarreit, en hann er sá hvort heppilegra hefði ekki verið í upphafi og kannski beri að stefna að því að breikka skattstofninn en stefna þá jafnframt að því að lækka skatthlutfallið.