Öryggismál sjómanna

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 10:48:48 (6461)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur verið unnið að samningu reglugerðar um rannsóknarnefnd sjóslysa þar sem m.a. er leitast við að skilgreina og afmarka nánar verkefni nefndarinnar. Reglugerðarsmíð þessi er á lokastigi. Vona ég að með þessu sé svarað fyrstu spurningu hv. fyrirspyrjanda.
    Spurt er: ,,Hefur að dómi ráðherra tekist að færa rannsóknir á sjóslysum ,,í nútímalegt horf`` eins og stefnt var að með breytingu á siglingalögum 1986, t.d. með því að haga þeim eins og gert er þegar flugslys verða?``
    Þær breytingar sem gerðar voru á rannsóknarnefnd sjóslysa með breytingum á siglingalögum árið 1986 miðuðu m.a. að því að auka sjálfstæði hennar. Í því skyni var ákveðið að sérfræðingar eða kunnáttumenn skipuðu nefndina og að nefndin hefði heimild til að rannsaka slys að eigin frumkvæði. Nefndin fylgist t.d. sjálfstætt með slysafregnum í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins. Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur heimild til að leita aðstoðar sérfræðinga og rannsóknastofnana ef þörf er talin á því og hefur nefndin m.a. fengið Iðntæknistofun til að rannsaka búnað ef bilun eða galli er talin líkleg orsök slyss. Í reynd hefur nefndin þó almennt byggt á sjóprófum og lögreglurannsóknum. Er það bæði vegna þess að niðurstöður þeirra veita almennt fullnægjandi upplýsingar sem nefndin getur byggt umfjöllun sína og álit á og einnig vegna þess að sjálfstæðar rannsóknir, t.d. neðan sjávar, eru afar kostnaðarsamar.
    Ég tel að kröfunni um aukið sjálfstæði sé að mörgu leyti fullnægt og að því leyti hafi tekist að ná fram því ætlunarverki Alþingis með umræddri lagabreytingu að styrkja stöðu nefndarinnar til að komast að raunverulegum orsökum slysa sem er ein helsta forsenda þess að fækka megi slysum. Ég tel að í þessu samhengi sé óhjákvæmilegt vekja athygli á því að að sjálfsögðu er hægt að styrkja stofnunina verulega með því að verja til hennar mun meiri fjármunum en nú er gert og á það raunar við á mörgum sviðum þar sem

hætta er á slysum svo að ég tali ekki um vegamál og ýmislegt annað, en ég hygg að eins og unnið er að þessum málum sé því vel fyrir komið en auðvitað sjálfsagt að þau mál séu áfram til endurskoðunar.
    Spurt er: ,,Telur ráðherra koma til greina --- einkum í ljósi tíðra sjóslysa að undanförnu --- að herða varrúðarreglur við siglingar skipa þannig að aldrei verði færri en tveir menn á vakt á brú hverju sinni?``
    Þessu er því til að svara að með fækkun áhafna skipa og bættum tækjabúnaði, t.d. sjálfstýringu, og eftir að ratsjá kom í brú 1960 var ákveðið að hafa einn mann á vakt. Það er skoðun þeirra sem um þessi mál hafa fjallað á vegum ráðuneytisins að með slíkum nútíma tæknibúnaði sé það almennt fullnægjandi að hafa einn mann í brú við eðlilegar aðstæður. En að sjálfsögðu skiptir mestu máli í þessu sem öðru að sem mest árvekni sé viðhöfð, farið eftir aðstæðum og menn séu samtaka um að gæta fyllsta öryggis.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, hæstv. forseti.