Öryggismál sjómanna

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 10:52:00 (6462)


     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda að leggja þessar fsp. fram og tel að það sé aldrei nóg að gert að hafa vakandi auga í sambandi við öryggismál sjómanna. Ég vil einnig þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Og við skulum líka minnast þess hve mikið hefur verið gert og hve mikið áunnist í öryggismálum sjómanna á síðustu árum, en það gerir það ekki að verkum að við eigum að leggja árar í bát heldur halda því verki áfram. Ég fagna auknu starfi rannsóknarnefndar sjóslysa sem á auðvitað að stefna að því að henni verði kleift að starfa með líkum hætti og rannsóknarnefnd flugslysa.
    Í sambandi við þriðju fsp. fyrirspyrjanda um það að tveir menn verði ávallt á vakt á skipi, þá er það auðvitað háð aðstæðum hverju sinni. Á litlum skipum er þetta ekki hægt eins og allir vita, en það á að gera meiri kröfur til skipstjórnarmanna um að menn haldi vöku sinni í þeim efnum.