Öryggismál sjómanna

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 10:54:05 (6463)


     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka svör ráðherra og öðrum sem hafa tekið til máls og ég fagna því að reglugerð sem spurt er um er nú að komast á lokastig og er alveg sannfærð um að það skiptir máli fyrir þau vinnubrögð sem ég hef spurt um.
    Ég er líka mjög sammála því sem hér hefur komið fram hjá ráðherra um sjálfstæði sjóslysanefndar og frumkvæði og alla möguleika á að leita til sérfræðinga, en það verður þá líka að leiða til þess að það gangi fram sem eftir er leitað. Auðvitað er almennt byggt á sjóprófum og lögreglurannsóknum eins og hér kom fram, en þær eru einn og fyrsti þáttur hvers máls og framhaldið er líka það sem mjög miklu máli skiptir, sérstaklega með það sem beinist að varrúðarráðstöfunum.
    Varðandi spurningu mína kemur fram hjá ráðherra að hann telji að með því sem gert hefur verið hafi þeim kröfum Alþingis varðandi lagasetninguna sem sett var 1986 verið fullnægt. Ég vona að í framhaldsvinnu þessa máls verði allt gert til þess að styrkja bæði stofnunina og framfylgja öllum þeim öryggisráðstöfunum sem hugsanlegt er. Og það er athyglisvert fyrir mig sem nefni hér hina breyttu tíð, m.a. stöðuna í brú á stími, út og heim, oftast að næturlagi, hvernig ástandið hefur e.t.v. versnað með auknum tækjabúnaði, sjálfstýringu og öðru því sem ég taldi upp og kallar á enn meiri árvekni en fyrr á árum, að einmitt það er orsök þess að ekki þurfi að vera með þær varúðarráðstafanir sem ég hér nefndi.
    Ég vil gjarnan að það komi fram að einn helsti viðmælandi minn í þessum efnum er óbanginn skipstjóri við eina af stærstu verstöðvum landsins sem sótt hefur sjóinn í yfir 30 ár. Hann og fleiri sem hafa látið sig þessi mál varða, öryggismálin, og hvernig þau ganga eftir voru einmitt að velta því fyrir sér hvort það væri ekki orðið tímabært nú að setja þessi mál í sama horf og flugslysarannsóknir. Það kom þeim mjög á óvart eftir að ég hafði kannað þetta mál mjög ítarlega þegar ég upplýsti um það að þannig hefði verið gert strax á árinu 1986. Við erum hér að tala um sjópróf, við erum að tala um rannsóknir, við erum að tala um úrvinnslu og niðurstöður og varúðarreglur sem eru settar í framhaldi slíkra mála eða ráðstafanir í samræmi við það. Ég er alveg sannfærð um að þessi mál hafa verið og eru í góðu horfi varðandi sjópróf, e.t.v. rannsóknir, e.t.v. úrvinnslu, en það virðist á skorta að miklar aflaklær sem láti sig þessi mál varða fái að vita hverjar niðurstöður mála eru þannig að þær geti dregið lærdóm af og gert sínar varúðarráðstafanir.
    Menn verða æ uppteknari af öryggismálum og það hefur mikið verið gert og það eru allir vakandi fyrir vörnum en það er umhugsunarefni hve sjóslys hafa verið tíð undangengin ár og hversu oft þau eru alvarleg hér við land þrátt fyrir byltingu í tækni, byltingu í skipakosti. Því var þessi spurning sett fram til umhugsunar og aðgerða.