Endurbætur á Árnanesflugvelli í Hornafirði

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:00:00 (6466)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Spurt er: ,,Hvernig standa rannsóknir til undirbúnings þverbraut og öðrum endurbótum á Árnanesflugvelli í Hornafirði?``
    Því er til að svara að aðflugsrannsóknum er lokið og fundin niðurstaða um heppilegustu legu hugsanlegrar þverbrautar gagnvart vindáttum. Verkfræðiathuganir standa yfir, þ.e. tillögugerð um nákvæma staðsetningu hugsanlegrar þverbrautar með hliðsjón af kostnaði. Nokkrar athuganir hafa einnig verið gerðar og eru fram undan í sambandi við flugvallarstæðið en frekari jarðvegsmælingar eru nauðsynlegar og jafnframt hefur ekki verið gengið frá kostnaðaráætlun í því samhengi. Arðsemisathugun hefur ekki verið framkvæmd, en flugmálastjóri telur að hennar sé þörf og hann leggur áherslu á þá skoðun sína í greinargerð til mín að þverbraut við núverandi flugvöll í Hornafirði hafi mjög takmarkað gildi fyrir flug þangað.

    Hann hefur varpað fram þeirri hugmynd að ný flugbraut niður við sjó á þeim stað sem notaður var til lendingar áður fyrr, þ.e. á Suðurfjörutanga, virðist eftir lauslega athugun geta gjörbreytt öryggi og tíðni flugs til Hornafjarðar og leggur áherslu á að sá kostur sé athugaður til hlítar. Ég legg áherslu á að tryggt hefur verið fjármagn til þess að nauðsynlegar athuganir geti farið fram varðandi hugsanlega þverbraut við flugvöllinn eins og hann liggur nú og þess er að vænta að niðurstöður um þau efni liggi fyrir á næsta hausti.