Endurbætur á Árnanesflugvelli í Hornafirði

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:05:14 (6468)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Mér finnst ýmislegt óljóst varðandi þetta mál eftir svar hæstv. ráðherra áðan og þá álitsgerð sem hann vitnaði til frá flugmálastjóra þar sem heldur var mælt gegn þeirri framkvæmd sem fsp. lýtur að. Ég er mjög undrandi yfir því ef þarna er komið alveg nýtt hljóð í strokkinn að þessu leyti og vil taka undir með síðasta ræðumanni og fyrirspyrjanda um þetta efni að verkefnið hlýtur að vera að tryggja þessa framkvæmd, þessa þverbraut. Ég er algerlega ósammála því viðhorfi að þetta hafi lítið gildi eins og heyra mátti á því svari sem hæstv. ráðherra flutti áðan. Ég ætla að vona að það sé skammt í að fjármagn fáist til þessa, en ég hef ekki sett mig inn í tillögur sem hafa verið að koma fram allra síðustu daga varðandi flugmálaáætlun eða frá hæstv. samgrh. og að hve miklu leyti það tengist þessu máli og væri gott að heyra um það.