Endurbætur á Árnanesflugvelli í Hornafirði

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:11:00 (6472)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Umræður hafa farið út og suður hjá þeim sem tóku til máls eftir að ég gaf skýr svör um hvernig staðan er og þessi staða er auðvitað ekki ný fyrir neinum þeim sem er kunnugur umfjöllun í flugráði um þessi mál. Það er til að eyða þessari óvissu sem ákvörðun hefur verið tekin um að ljúka rannsóknum vegna þverbrautar á Árnanesflugvelli einmitt vegna þeirrar miklu þýðingar sem þessi flugvöllur hefur og sérstöðu eins og hv. þm. er kunnugt.
    Ég gerði nákvæma grein fyrir því hvert rannsóknir væru komnar. Ég gerði líka grein fyrir því hvaða rannsóknir væru eftir og ég lýsti því jafnframt yfir að þess væri að vænta að niðurstöður gætu legið fyrir á hausti komanda þannig að mér er alveg gersamlega ómögulegt að skilja hvernig einstakir þingmenn geta komist að þeirri niðurstöðu að ég sé með einum eða öðrum hætti að drepa málinu á dreif, að ég sé að reyna að draga úr því að niðurstaða fáist af þessu máli eða ég sé með einhverjum öðrum hætti að bregða fæti fyrir það að þetta mál hafi eðlilegan framgang. Hitt liggur alveg ljóst fyrir, bæði varðandi flugvallargerð, vegargerð, hafnargerð og ýmislegt annað, að það er eftir stöðum og aðstæðum þörf á mismikilli undirbúningsvinnu áður en farið er í framkvæmdir og hv. þm. þekkja allir úr sínum kjördæmum dæmi um það að betur hefði verið farið hægar af stað en unnið þeim mun meira af rannsóknarverkefnum áður en út í framkvæmdirnar var ráðist.
    Það þótti mér líka mjög athyglisvert að það kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að enn lægi ekki fyrir niðurstaða um hvar heppilegust staðsetning þverbrautar væri sem er þvert ofan í þær upplýsingar sem ég hef, en fram kom í mínu svari að lokið væri aðflugsrannsóknum og komin niðurstaða um heppilegustu legu hugsanlegrar þverbrautar gagnvart vindáttum. Umræðurnar hafa því farið út og suður, vil ég segja, hæstv. forseti.
    Hitt þykir mér líka undarlegt ef hv. þm. telja að það veiki með einhverjum hætti skoðanir ráðherra ef þeir segja satt frá því hver sé afstaða þeirra manna í embættismannakerfinu sem mesta ábyrgð bera í þessum efnum. Auðvitað ber mér sem ráðherra að skýra satt og rétt frá þeim viðhorfum líka sem hefur enga pólitíska þýðingu í því samhengi sem hér er verið að tala um. Það liggur sem sagt fyrir að athuga nú í sumar nákvæmlega hver staða þessarar þverbrautar sé, út frá flugfræðilegum sjónarmiðum, framkvæmdalegum sjónarmiðum, kostnaðarlegum sjónarmiðum og arðsemissjónarmiðum. Því er lýst yfir að þessum rannsóknum verði lokið nú á hausti komanda og jafnframt liggur fyrir tillaga frá mér í þinginu um að nægilegir fjármunir séu fyrir hendi til þess að hægt sé að ráðast í þessa hluti. Ég átti því von á því að tónninn hjá þingmönnum Austfirðinga af þessu tilefni yrði annar en mér heyrðist hann vera í dag.